Skoðanasamfélagið

Hin daglega rökvilla er í boði Halldórs Halldórssonar (einnig þekktur sem Dóri DNA). Ég er ekki ósammála mörgu í pistli hans á vísi.is, en vegna dræmrar rökvilluveiði í dag verðum við að tala um það sem hægt er.

Eins og titillinn „Skoðanasamfélagið“ ber með sér fjallar pistillinn um umræðu á Íslandi. Sú hugmynd sem Halldór minnir á og ver er að ekki allar skoðanir séu jafngildar.

Við hittum reyndar eina birtingarmynd þessar hugmyndar (eða neitunar hennar, það er að allar skoðanir séu jafngildar) í brennivínsóði Guðmundar í gær. Röksemdafærslan þar var: Þeir segja A, ég veit ekkert um A, því er A rangt. Eina leiðin til að þetta gangi upp er að ganga út frá að allar skoðanir séu jafngildar, óháð hversu mikilli hugsun, visku eða staðreyndum þær séu byggðar á. Þetta getur ekki verið rétt: Í gamla daga voru kirkjan og Galileó ósammála um hvort jörðin snérist um sjálfa sig eða ekki; að annar aðilinn vissi ekkert um það og remdist við að vera sannfærður um sinn hlut breytti engu um að hann hafði rangt fyrir sér.

Í heildina stendur Halldór sig ágætlega við nærpredikun sína. Ég segi nærpredikun því það er ansi lítið um röksemdir þar. Stíllinn minnir mig frekar á reiðiræður Charlie Brooker (sem eru góð skemmtun en rökfræðilega ótryggar; samanber þessa tveggja mínútna löngu persónulegu árás) þar sem markmiðið er ekki að sannfæra andstæðinga sína heldur að benda þeim sem eru nú þegar sammála manni á hvað andstæðingarnir eru kjánalegir.

Og fyrst við tölum (innansviga) um persónulegar árásir getum við minnst á rökvillu dagsins:

Svo er okkur rosalega annt um skoðanir annarra. Hvað finnst Gylfa Ægissyni um samkynhneigða? […​] Gylfi Ægisson er karlfauskur úr Vestmannaeyjum. Hverjum er ekki drullusama hvað honum finnst?

Þessi rökvilla er svo vel upp alin að hún ber nafn á latínu: ad hominem. Á Íslandi er þessi villa þekkt undir fótboltalíkingu; við myndum þá segja að Halldór hafi farið í manninn (Gylfa) en ekki boltann. Ef ég væri illa upp alinn hefði ég gert ráð fyrir að lesendur þekktu þessa líkingu og byrjað þessa grein á einhverju eins og „Jæja, Halldór. Alltaf í boltanum?“ Blessunarlega gerði ég það ekki.

Þrátt fyrir að þessi villa sé mörg þúsund ára gömul hefur ákveðinn íslenskur stjórnmálamaður hefur eignað sér hana (og hlotið mikið lof aðdáenda sinna fyrir „ræðusnilld“) sem „smjörklípuaðferðina“. Aðferðin gengur út á að kalla andstæðinga sína, til dæmis, "afturhaldskommatitti" í staðinn fyrir að rökræða við þá, fylgjast með þeim froðufella af bræði og draga alla umræðu niður í sandkassann. (Ekki að andstæðingar þessa manns séu á hærra plani; ef færi gefst eru þeir fyllilega tilbúnir til að saka þá sem þeir eru ósammála um „skítlegt eðli“.)

En aftur að efninu. Gylfi Ægisson hefur fullyrt hitt og þetta um samkynhneigða. Að Gylfi Ægisson sé karlfauskur frá Vestmannaeyjum er í besta falli rót þessa fullyrðinga en segir eitt og sér ekkert um hvort þær séu réttar eða rangar. Því er ekki hægt að hrekja fullyrðingar Gylfa með að tala um persónu hans. Að reyna það heitir persónuárás; að fara í manninn en ekki boltann; eða ad hominum.

Þó Halldór fremji þessa villu bendir hann á ýmislegt áhugavert um almenna umræðu, eins og:

Það er algjört brjálæði að lifa á tímum þar sem allar skoðanir eru jafngildar – í alvöru. Háskólamenntun, reynsla, rannsóknir, tölfræði og staðreyndir víkja fyrir þeim sem er með vinsælustu skoðunina. Við getum öll sammælst um eina lausn til þess að láta þjóðfélagið fúnkera og það er lýðræði en maður þarf ekki að grúska lengi í mannkynssögunni til að sjá að fjöldanum skjátlast svona yfirleitt. Það er vandlifað.

Sigtuð aðeins niður sýnist mér þessi málsgrein segja þetta: Við lifum á tímum þar sem allar hugsanir eru jafngildar, svo vinsælasta skoðunin hverju sinni vinnur, en vinsælasta skoðunin er ekki endilega góð, svo lýðræði er ekki gott. Ég væri mjög til í að lesa pistil þar sem Halldór veltir þessari hugsun betur fyrir sér og kryfur hana til mergjar. Þetta hlýtur að vera vel þekkt gagnrýni á lýðræði svo það ætti að vera hægt að finna margt áhugavert þar um. Fyrir utan náttúrlega hvað það yrði áhugavert að sjá hvað Halldór meinar þegar hann segir að fjöldanum skjátlist; meinar Halldór að hann sé ósammála fjöldanum, að sagan dæmi gjörðir fjöldans illa, eða eitthvað annað? Hver ákveður hvaða skoðanir fjöldans eru góðar?

Að lokum finnst mér ómögulegt að klára ekki á ítrun af lokaorðum Halldórs:

Kæri lesandi, þú ert að lesa skoðun manns á skoðunum. Velkominn í firringuna.

Kæri lesandi, þú ert að lesa skoðun manns á skoðun manns á skoðunum. Meta!