Í pottinum með Birni Bjarnasyni

Góðvinur minn og fyrirmynd Björn Bjarnason skrifaði í gær pistil á vef Evrópuvaktarinnar. Tilefnið var Youtube myndband Láru Hönnu Einarsdóttur, fyrrverandi blaðamanns og núverandi varaformanns í stjórn RÚV, þar sem hún gagnrýndi nýjan sunnudagsþátt Gísla Marteins Baldurssonar.

(Sanngirnissvigi: Svo jafnt gangi yfir alla skal ég taka fram að ég er ekki sáttur við allt í myndbandi Láru; sumar tilvitnanir hennar eru endaslepptar og geta ekki talist annað en strámannstilburðir. Aðrir hlutar gagnrýni hennar eiga þó rétt á sér; mér fannst hart að sjá Gísla Martein ramma umræðuna inn þannig að mótmælendur væru sjálfkrafa af hinu slæma.)

Þetta myndband Láru, eða frekar tilvist þess, hafa vakið athygli fleiri en Bjarnar, til dæmis sá Fréttablaðið ástæðu til að benda á það og Hannes Hólmsteinn Gissurarson sagði á Facebook síðu sinni:

Þessi kona er einhver furðufugl. Hún hefur gert myndbönd um marga. Ég botna ekki í, hvers vegna henni eru falin einhver trúnaðarstörf. En því miður gat ég ekki horft á þátt Gísla Marteins, þar sem ég var (og er) erlendis í fyrirlestraferð.

Ég fel lesendum það verk að meta ummæli HHG (Ath: ekki Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata) á rökfræðilegum nótum.

En hvað finnst Birni Bjarnasyni? Af pistli hans að dæma er þetta pólitískt mál í hans augum. Björn byrjar á að rifja upp að nýlega var lögum um skipan í stjórn RÚV breytt svo að nú ákveður Alþingi hver situr þar:

Þá rákum [sic] vinstrisinnar upp ramakvein og töldu að pólitík hefði hafið innreið sína í stjórn ríkisútvarpsins, var látið eins og stjórn undir formennsku Bjargar Evu Erlendsdóttur, fulltrúa vinstri-grænna hefði verið ópólitísk.

Ég held að þetta sé strámaður hjá Birni, það er að hann geri andstæðingum sínum upp skoðun sem þeir höfðu ekki: Meintir vinstrimenn (var bara fólk frá þeim væng kaldastríðsstjórnmála á móti að Alþingi skipaði stjórn RÚV?) héldu ekki fram að stjórn RÚV hefði verið laus við pólitík heldur að ríkisstjórnir Íslands gæti í framtíðinni, gegnum þingmeirihluta, haft áhrif á fréttaflutning stofnunarinnar; sjá ræðu HHG (ekki Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar) á Alþingi og pistil Inga Freys Vilhjálmssonar, blaðamanns DV.

Hvað sem því líður er ljóst að ef stjórn RÚV var ekki pólitísk áður þá er hún það núna. Leyfum Birni því að eiga þann punkt. Undir þeim formerkjum er Björn viss um hvað býr að baki myndbandi Láru:

Lára Hanna er varamaður í stjórn útvarpsins á vegum Píata [sic]. Við hið furðulega kjör í stjórn útvarpsins á alþingi sl. sumar var upphaflega ætlun Pírata að Lára Hanna yrði aðalmaður en fallið var frá því og sagði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, í samtali við Fréttablaðið að líklega væri Lára Hanna „illa séð af valdamönnum“ og þess vegna hefði hún orðið varamaður en ekki aðalmaður!

Heift Láru Hönnu, sem var (og er) í uppáhaldi hjá Agli Helgasyni, í garð Gísla Marteins einkennist að sjálfsögðu af flokkspólitík. Ber að líta á hana sem slíka, tilgangurinn er einfaldlega að skemma sem mest fyrir Gísla Marteini af pólitískum ástæðum.

Hér sé ég vankanta á tvennu í málflutningi Björns.

Fyrst er smáatriðið um hin undarlegu orð Björns að Lára sé í uppáhaldi hjá Agli Helgasyni, sem ég fæ ekki séð að komi málinu nokkuð við, þá ef sönn reynast. Mér dettur helst í hug að hugsun Bjarnar sé eitthvað á þá leið að Egill Helgason sé þekktur vinstrimaður (hrækt á jörð), því sé hann illur og að Lára sé í meintu uppáhaldi hans merki að hún sé ill líka. Jafnvel þó við gerum ráð fyrir illsku Egils Helgasonar er þetta rökvillan um sök vegna tengsla, því sá hugur sem Egill ber til Láru er málinu óviðkomandi.

Næst er aðalhugsun Bjarnar, sem er einhvern veginn svona: Lára var pólitísk skipuð af Pírötum. Markmið hennar að eyðileggja fyrir Gísla Marteini með öllum ráðum. Því er málflutningur hennar ómerkur.

Rétt er að Píratar vildu Láru í stjórn RÚV. Þeir hafa sent frá sér tilkynningu þar sem þeir endurtaka ástæður sínar fyrir því ("[hún] þorir að vera óþolandi flugan í tjaldinu") og styðja myndband Láru út frá tjáningafrelsissjónarmiði. Ég veit ekki til þess að Píratar hafi nokkuð á móti Gísla Marteini eða telji hann sérstakan andstæðing sinn, svo án frekari rökstuðningar Bjarnar eru tengsl á milli skipunar Láru af hálfu Pírata og skoðana hennar á Gísla Marteini dæmi um rökvilluna niðustaða tengist staðreyndum ekki beint.

Næst er fullyrðing Bjarnar um að markmið Láru sé að eyðileggja fyrir Gísla Marteini. Hún er hér sett fram án frekari rökstuðnings og þó einhverjir rökfræðilegir vankantar séu á myndbandi Láru sé ég ekki ástæðu til að efast um að tildrög þess séu önnur en það sem hún segir sjálf: "Við þurfum beitta, upplýsandi og gagnrýna umræðu. Ekki yfirborðskennda froðu." Þar gagnrýnir Lára innihald þáttar Gísla, og þó sú gagnrýni sé ekki gallalaus byggist hún á verki Gísla Marteins en ekki persónu hans. Eftir að hafa skoðað myndband Láru fæ ég því ekki annað út en að þessi fullyrðing Bjarnar eigi ekki við rök að styðjast og kalla eftir frekari útskýringum af hans hálfu.

Björn lýkur svo máli sýnu á þessum orðum:

Viðbrögð dagskrárstjórans um að varamaður í stjórn ríkisútvarpsins megi ekki segja opinberlega skoðun á efni stofnunarinnar eru dapurleg. Það er greinilega litið þannig á stjórnarmenn ríkisútvarpsins innan veggja þess að þeir séu hluti af hópnum í Efstaleiti en ekki fulltrúar almennings með sjálfstæða, gagnrýna rödd. Verði frumhlaup Láru Hönnu til að virkja stjórnarmenn ríkisútvarpsins í opinberum umræðum um dagskrá þess og efnistök ber að taka því fagnandi þótt efnistökum hennar sé mótmælt sem óvinsamlegum og hlutdrægum.

Þannig starfsmenn RÚV mega tjá sig eins og þeir vilja, svo lengi sem þeir tjá sig rétt?