Hugleiðingar um Skálholt

Guðbjörg Snót Jónsdóttir er ekki hamingjusöm í Morgunblaðinu í dag:

Það kom nýlega fram í fréttum, hvað Kirkjuráð hefur verið að gera. Þeir ætla sér að ausa stórfé í þessa svokölluðu miðaldadómkirkju, og það á sama tíma og margar sóknir eru nærri gjaldþrota og geta vart sinnt því starfi, sem þær eiga að sinna, eins og kom fram í grein eftir sr. Gísla Jónasson, prófast, hér í blaðinu í sumar.

Þeir lesendur sem vita ekki hvað um ræðir þurfa ekki að örvænta, því gríðarlega heppilega nefnda vefsíðan Miðaldakirkja í Skálholti mun allt útskýra. Í stuttu máli vill hluti Þjóðkirkjunnar reisa eftirlíkingu af kirkju frá miðöldum í Skálholti. Kirkjan sem á að líkja eftir stóð víst þarna í raun og veru, en á síðu stuðningsmanna vekur athygli mína að skýrustu lýsingarnar á þeirri kirkju eru úr skáldsögu sem kom út árið 2003. Lesendur geta skemmt sér við að bera þær saman við hugmynd listamanns á sömu síðu um hvernig eftirlíkingin muni líta út.

Guðbjörg er lítið hrifin af þessari hugmynd og mun útlista mótrök sín við henni.

Hvað kemur næst, getur maður líka farið að spyrja. Ég er alls ekkert hrifin af þessu brölti í Kirkjuráðinu, og botna ekkert í því að halda áfram með þetta með þessum hætti, sem það gerir, í andstöðu við fjöldann.

Nú veit ég ekkert um hvað meðlimum Þjóðkirkjunnar finnst um þessar framkvæmdir og því ekki hvort þeir séu almennt fylgjandi þeim eða ekki. Þar sem Þjóðkirkjan er ríkistengd mætti jafnvel færa rök fyrir að landsmönnum almennt komi þetta málefni við. Óháð því er merking Guðbjargar:

Fólkið er á móti framkvæmdunum, svo það á ekki að ráðast í þær.

Sem röksemdafærsla væri þetta allt í lagi, ef að Guðbjörg hefði sýnt fram á að fólkið (aftur, hvaða fólk nákvæmlega?) sé á móti framkvæmdunum. Hún gerir það ekki í pistli sínum heldur virðist gera ráð fyrir mótbárum fólksins.

Þessu bragði er mikið beitt í almennum umræðum. Þá álitur flutningsmaður að eitthvað málefni sé svo sjálfsagt eða viðurstyggilegt að allt sómakært fólk hljóti að vera sammála honum. Yfirleitt gleymist þó að sannreyna að fólk sé almennt sammála flutningsmanninum; og ef það er gert en ákveðinn hluti fólksins streytist á móti má alltaf endurskoða skilgreingu sómakærleika til að útiloka skemmdu eplin. (Hversu oft höfum við til dæmis heyrt að þeir einu sem gætu verið ósammála sammála stjórnmálamanni X séu vinstri-/hægrimenn?)

Guðbjörg heldur áfram og útlistar fleiri ástæður á móti miðaldakirkju. Helst hefur hún áhyggjur af plássleysi sem bygging hennar mun hafa í för með sér og ágangi ferðamanna:

Ef fræðimenn vildu vera í næði þarna á staðnum til að skrifa eða stúdera fræðin sín, þá væri nú lítill friður til þess, ef þetta ætti að vera almennur ferðamannastaður. Hvernig ættu prestarnir líka að fara með fermingarbarnahópa í Skálholt, ef það ætti að reka skólann eins og venjulegt hótel við veginn? Þeir kæmust aldrei að, enda skilst mér nú, að Sigurbjörn biskup hafi aldrei ætlað skólanum að vera slíkt hótel við veginn, heldur reka hann sem skóla, minnug gamla lýðháskólans, sem þar var rekinn fyrir margt löngu og mætti alveg endurreisa þess vegna, ef hægt væri. Og hvað með kyrrðardagana? Þeir myndu alveg leggjast af, því að það fer engan veginn saman að hafa kyrrðardaga og túristarennerí á sama tímanum. Og hvernig ættu tónlistarmenn Sumartónleikanna að komast að þar til veru og æfinga, ef öll hús yrðu troðfull af ferðamönnum? Það sér náttúrlega hver viti borinn maður, að þetta gengur engan veginn upp.

Ég viðurkenni að skilja ekki fullkomlega hvernig bygging húss mun leiða til húsnæðisskorts, en hugsanlega hefur Guðbjörg hér áhyggjur af auknum ágangi í það gistihúsnæði sem er til staðar í Skálholti. Hvað sem því líður er rökvilla í hugleiðingu Guðbjargar, því það eina sem hún hefur í raun og veru á móti framkvæmdunum er að hún getur ekki ímyndað sér lausn á ákveðnum vandamálum og ályktar því að engin lausn sé til. Köllum þetta ímyndunarleysi og athugum að hún er einnig algeng rökvilla í almennri umræðu.

Næst leggur Guðbjörg í þrennu, því verk er hálfnað þegar hafið er:

Þetta gengur ekki. Ég get heldur ekki séð, hvernig þetta timburferlíki getur verið í Skálholtslandi. Fyrst á að byrja á þessari vitleysu, á maður kannski von á að sjá allar kirkjurnar rísa þarna af grunni í viðkvæmu Skálholtslandinu: þetta ferlíki, og svo Ögmundarkirkju og Brynjólfskirkju?

Fyrst kirkja hér, svo kirkja þar, svo kirkjur alls staðar. Að ímynda sér að ein aðgerð hafi stigvaxandi afleiðingar sem endi með ósköpum er rennibrautarvillan, oft notuð einmitt til að stöðva breytingar eða framkvæmdir. Til dæmis getum við engan veginn leyft samkynhneigðum að giftast því innan skamms verða þá öll pör samkynhneigð og þá deyr mannfólkið út. (Athugið að villunni er venjulega beitt af aðeins meiri skynsemi en þetta. Ég tek einnig fram að ég veit ekkert og vil ekkert gefa í skyn um afstöðu Guðbjargar til giftinga samkynhneigðra.)

Aðrar mótbárur Guðbjargar má lesa hér að neðan, en engin þeirra er sérstaklega sannfærandi. Annars held ég að aðalástæðuna fyrir mótlæti hennar megi finna í þessum orðum:

Ég skil ekki tilganginn, og því verður að reyna að stöðva þessa vitleysu.


Það kom nýlega fram í fréttum, hvað Kirkjuráð hefur verið að gera. Þeir ætla sér að ausa stórfé í þessa svokölluðu miðaldadómkirkju, og það á sama tíma og margar sóknir eru nærri gjaldþrota og geta vart sinnt því starfi, sem þær eiga að sinna, eins og kom fram í grein eftir sr. Gísla Jónasson, prófast, hér í blaðinu í sumar. Ég verð nú að segja, að heldur þykir mér þetta æðsta ráð kirkjunnar vera farið að líkjast þjóðníðingi Ibsens, þegar það böðlast svona áfram með þessa fáránlegu hugmynd Flugleiðafólks um þennan kumbalda þarna í Skálholti, hvað sem hver segir og þótt þeir hafi stærstan hluta kirkjunnar fólks á móti sér, líkt og þjóðníðingurinn hafði þjóðina á móti sér í leikritinu, og ansaði því í engu, sem hún sagði. Það er ekki gott að spá um endinn á þessum ósköpum, ef enginn lifandi maður getur komið vitinu fyrir þá þarna í Kirkjuráðinu.

Hvað kemur næst, getur maður líka farið að spyrja. Ég er alls ekkert hrifin af þessu brölti í Kirkjuráðinu, og botna ekkert í því að halda áfram með þetta með þessum hætti, sem það gerir, í andstöðu við fjöldann.

Á líka að segja manni það, að kirkjan geti ekki auglýst staðinn upp og trekkt upp aðsóknina að honum, án þess að fara að breyta rekstrinum að stærstum hluta, og gera þetta að einhverjum Edduhótelsstað? Ég er nú sannfærð um það, að Sigurbjörn biskup, frændi minn, hefði vel treyst sér til þess, og ég er hissa á biskupi Íslands að ljá máls á þessu ferlíki á Skálholtsstað og eyðileggja staðinn með því móti, og var nú að vonast til, að hún reyndi að standa vörð um staðinn eins og hann hefur verið byggður upp, og starfsemina þar, eins og hún hafði verið hugsuð, og skil ekkert í henni. Ég hélt nú, að ekki vantaði traffíkina á þessum stað, og þyrfti þess vegna ekki að gera hann að ferðamannastað, enda hefur mér skilist, að hann hafi verið það á margan hátt frá 1056.

Þegar ég dvaldist vikulangt í Skálholti sumarið 2004, þá fannst mér ekkert vanta upp á það, að fólk sækti staðinn eða vildi sækja hann heim. Þó að það sé nú ekki alltaf jafnmikil traffík alla daga, þá gerði það nú ekki mikið til, hélt ég. Ef fræðimenn vildu vera í næði þarna á staðnum til að skrifa eða stúdera fræðin sín, þá væri nú lítill friður til þess, ef þetta ætti að vera almennur ferðamannastaður. Hvernig ættu prestarnir líka að fara með fermingarbarnahópa í Skálholt, ef það ætti að reka skólann eins og venjulegt hótel við veginn? Þeir kæmust aldrei að, enda skilst mér nú, að Sigurbjörn biskup hafi aldrei ætlað skólanum að vera slíkt hótel við veginn, heldur reka hann sem skóla, minnug gamla lýðháskólans, sem þar var rekinn fyrir margt löngu og mætti alveg endurreisa þess vegna, ef hægt væri. Og hvað með kyrrðardagana? Þeir myndu alveg leggjast af, því að það fer engan veginn saman að hafa kyrrðardaga og túristarennerí á sama tímanum. Og hvernig ættu tónlistarmenn Sumartónleikanna að komast að þar til veru og æfinga, ef öll hús yrðu troðfull af ferðamönnum? Það sér náttúrlega hver viti borinn maður, að þetta gengur engan veginn upp.

Eins og margoft hefur verið klifað á í ræðu og riti, þá fékk kirkjan Skálholt til eignar og umsjónar fyrir réttum fimmtíu árum, og því á kirkjan ævinlega fyrsta rétt á notkun staðarins og staðarhúsa, og þannig ætti það að vera alla tíð. Það hefur enginn utanaðkomandi aðili leyfi til að bola því kirkjunar fólki, sem vill nýta staðinn fyrir kirkjulega starfsemi, í burtu á grundvelli annarra hugsjóna óskyldra, eins og ferðamannaiðnaðar. Það væri helber dónaskapur og yfirgangur í hæsta máta, sem engum má líðast. Kirkjuráðið verður að vera sér þess vel meðvitað, áður en það fer að hleypa einhverjum slíkum boðflennum að helgasta kirkjustað þjóðarinnar.

Mér finnst þetta svo fáránleg framganga af hálfu Kirkjuráðs, að ég veit ekki, hvað ég á að hugsa eða halda um þetta. Ég vona, að hávaðinn verði sem mestur, bæði í vígslubiskupi, skólaráði, Skálholtsfélagsstjórninni og öllum, sem láta sig málið varða. Þetta gengur ekki. Ég get heldur ekki séð, hvernig þetta timburferlíki getur verið í Skálholtslandi. Fyrst á að byrja á þessari vitleysu, á maður kannski von á að sjá allar kirkjurnar rísa þarna af grunni í viðkvæmu Skálholtslandinu: þetta ferlíki, og svo Ögmundarkirkju og Brynjólfskirkju? Til hvers, væri þá næsta spurning. Ég skil ekki tilganginn, og því verður að reyna að stöðva þessa vitleysu, áður en lengra verður haldið, því að þó að þetta kunni að líta vel út á teikniborðinu, þá yrði þetta ömurlegt í raun og myndi skyggja á heildarmynd staðarins, og þá fallegu kirkju, sem þar stendur.

Guðni rektor í MR var gjarn á að áminna okkur nemendur sína á ensku að nota heilann, þegar honum fannst við fara fram úr okkur að einhverju leyti eða gera einhverjar vitleysur. Ég held ég sendi þau orðin til Kirkjuráðs hér í lokin og bæti við: Notið heilann og látið nú skynsemina ráða. Þetta gengur ekki lengur.