Hlé fram yfir áramót

Ókei, þetta gengur ekki. Ég get engan veginn haldið þessu bloggi uppi í augnablikinu.

Ástæðan er rosa einföld: ofan á fyrsta árs doktorsnám er ég að kenna áfanga á fyrsta ári í háskólanum hérna. Fimm daga vikunnar heldur þetta tvennt mér uppteknum sirka ellefu tíma á dag, á laugardögum fara aðeins svona fjórir eða fimm tímar í vinnu, og á sunnudögum tek ég frí.

Þið megið alls ekki misskilja mig þannig að ég sé eitthvað annað en viðurstyggilega ánægður með þetta fyrirkomulag. Næstum það eina sem ég geri er að rúlla mér eins og svín upp úr stærðfræðidrullu allan liðlangan daginn, og ég er hamingjusamur sem eitt slíkt. En ég vil að sá litli frítími sem ég á fari í eitthvað annað en að hanga fyrir framan tölvuna og skrifa langar, ólesnar pælingar um hryllingsmyndir.

Ég losna við kennsluskylduna eftir áramót, svo þá geri ég ráð fyrir að geta byrjað aftur með reglulegt röfl. Áður en það gerist hlýt ég að geta mannað mig upp í að klára Cold Prey loksins, og kannski detta ein eða tvær aðrar inn á næstu þrem mánuðum.

Sjáumst í mesta skammdeginu.