Hiti

Um leið og ég gekk inn um dyrnar í kvöld slökkti ég öll ljós…​ eða…​ ef þau hefðu þegar verið kveikt hefði ég slökkt á þeim. Þetta er reyndar andstæðan við það fyrsta sem ég gerði, því ég hafði bjór sem þurfti að fara inn í frysti. Þar sem ég sá ekki neitt kveikti ég ljósin, í beinni mótsögn við fyrstu setningu mína.

Reynum aftur.

Stuttu eftir að ég gekk inn um dyrnar í kvöld slökkti ég öll ljós. Ég stóð í meterslöngum ganginum á milli eldhússins míns og stofunnar og vandist myrkrinu. Annað fólk, hugsaði ég, fólk sem hefur hluti að fela, er illa við myrkrið. Ég er vanur því og öllum þess myndum, myrkar sem þær eru. Ég gekk inn í stofu og sparkaði í hægindastól sem ég sá ekki og bölvaði öllum guðum þessa heims.

Ég opnaði stofugluggann upp á gátt og haltraði inn í svefnherbergi. Á miðju gólfinu lá dýnan mín, svo ég gekk til hennar og greip í nælonkuðul sem hékk úr loftinu ofan við hana. Með mjúkum handatökum gekk ég hringin í kringum dýnuna og breiddi úr honum, og gekk svo annan hring og renndi lausum endum undir dýnuna. Svo opnaði ég svefnherbergisgluggann og settist í jógastöðu á dýnuna mína með bjór í hönd undir dásamlegum moskítóflugnanetshimni.

Endrum og eins drifu léttir vindhvirflar í gegnum netið og léku um líkama minn eins og konur hafa ekki gert lengi. Mér þótti það gott.

Áður en ég flutti til Frakklands langaði mig mest að komast til heitari lands þar sem væri enginn vindur. Grenoble liggur í dal sem sorðinn er á þrjá vegu af fjallsbálknum. Þau dekka alla vinda sem leita í dalinn okkar. Á sama tíma hindra þau alla loftmengun í að hypja sig burt og gera borgina að prýðilegu sýnidæmi fyrir gróðurhúsaáhrif.

Á sumrin nær hitinn á daginn reglulega 35 stigum. Það sem er einstakt við Grenoble er að hitinn helst í 35 gráðum frá hádegi fram yfir miðnætti. Fyrst upp úr tvö um nóttina tekur hitinn að lækka niður í mannleg stig á tvítugsaldri og litlir Íslendingar ná að sofa. Þangað til, sem og eftir, þarf fólk að lifa með mannhæðarháa gluggana opna að nóttu til.

Á nóttunni koma moskítóflugurnar. Þær koma í hrönnum. Þær bíta og suða og bíta aftur og í bitin klæjar í viku á eftir.

Áður en ég flutti til Frakklands langaði mig mest að komast til heitari lands þar sem væri enginn vindur. Stundum rætast óskir manns.