„Brennivínið gefur anda og snilli“

Guðmundur Andri Thorsson skrifar pistil á vísi.is í dag. Hann má lesa í heild sinni hér. Markmið þessa pistils er að sannfæra okkur, lesendur, um að á Vogi sé hin góða barátta gegn alkahólisma á Íslandi unnin. Athugum hvernig Guðmundi tekst til.

Guðmundur skiptir pistli sínum í þrjá hluta eins og klassískt er. Fyrsti hluti hans kynnir málefnið sem á að tala um, en ekki áður en hann gerir tilraun til að fanga athygli lesenda með skemmtilegri blöndu af íslenskum úrdrætti og innantómu hrósi:

Það er svo margt sem aflaga hefur farið hjá okkur Íslendingum og stundum er talað eins og þessi þjóð sé mestu asnar í heimi, viti ekkert, kunni ekkert, læri ekkert og geti ekkert – nema verið asnar.

Ætli það sé ekki eitthvað orðum aukið.

Hér er á ferðinni sama rökvilla og felst í að sannfæra einhvern um sannindi með því að segja „Jafn gáfaður maður og þú hlýtur að sjá að A er rétt.“ Engin röksemdafærsla á sér stað. Guðmundur djassar þessa villu upp með því að snúa henni við; hann telur upp lista af hræðilegum eiginleikum Íslendinga áður en hann neitar þeim og skipar þannig sér og lesendum, sem eru væntanlega ósammála því að þeir séu asnar, í sama lið.

Að liðsöfnuðinum loknum kynnir Guðmundur efni pistilsins: Íslendingum hefur vel tekist að meðhöndla alkahólisma og kunningi hans vill að talað sé um hið góða starf sem unnið er á Vogi. Næstu tveim málgreinum er svo eytt í tilfinningatog þar sem engin rök eru viðruð en er væntanlega ætlað að tala á móti alkahólisma og fíkn almennt.

Ég viðurkenni að skilja ekki fullkomlega annan hluta pistilsins. Hann talar um frjálsan vilja, DNA, persónulega ábyrgð, Dani og hvað lífið sé erfitt. Hér eru nokkur brot:

Þeir tala um alkóhólistagen. Og var víst eitt af því sem átti að gera okkur rík í síðustu bólu – að hafa þessi óskaplegu gen. Ég veit það ekki. Ég er ekki nógu vel að mér í líffræði til að vita hvort til sé alkóhólistagen, þjófagen, lygagen, utanviðsig-gen eða kærleiksgen. Held samt ekki

Þeir^[tilvísun vantar]^ tala um A. Ég veit ekkert um A. Því er A rangt.

Þetta er ein vinsælasta rökvilla íslenskrar umræðu, alveg lengst uppi með ad hominem. Opinberir aðilar virðast aldrei þreytast á að henda henni upp við ólíklegustu tilefni, en vandamálið við þessa villu ætti öllum að vera ljóst.

Hér er einnig á ferðinni mjög vafasöm og blekkjandi delering: Guðmundur byrjar á alkahólistageni og telur upp stigvaxandi óvísindaleg gen úr ímyndunarafli sínu, væntanlega til að draga úr trúverðugleika hins fyrsta. Það á ekkert skylt við rökræðu.

Áhugasamir lesendur geta athugað afganginn af öðrum hluta pistilsins þar sem sjá má hina sívinsælu klisju „allt Dönum að kenna“ og hugleiðingar um frjálsan vilja. Þessum hluta lýkur á góðum strámanni:

Það viðhorf hefur verið landlægt hér að fullkomlega eðlilegt sé að veruleikinn sé óbærilegur, og eina ánægja sem hægt sé að hafa af lífinu sé að flýja inn í óraunveruleika vímunnar.

Er það nú?

Í síðasta hluta pistilsins tæklar Guðmundur þennan strámann. Samkvæmt honum eru lífið og tilveran eru tvö ólík fyrirbæri á Íslandi; lífið er það sem er skemmtilegt og tilveran er dagleg rútína. Hann færir engar sönnur fyrir þessari sannfæringu okkar aðra en að stundum er talað um „lífið og tilveruna“. Að því loknu færir Guðmundur okkur niðurstöðu sína:

Tilveran er erfið. Því verður fólk alkahólistar. Vogar eru mikilvæg stofnun.

Að fólk verði alkahólistar því tilveran sé erfið er dæmi um rökvillu sem við getum kallað hina óflekkuðu orsök; fólk verður alkahólistar af ýmsum ástæðum og samblöndum af þeim, svo að segja að það sé einungis ein orsök fyrir alkahólisma er rangt.

Í síðustu fullyrðingu sinni segir Guðmundur að Vogar gegni hlutverki við að hjálpa fólki við að finna lífið í tilverunni, sem er eina orsök alkahólisma samkvæmt honum, en færir engin rök fyrir eða dæmi um hvernig Vogar gera það. Því verðum við að telja að hér framkvæmi Guðmundur hringavitleysu, þar sem niðurstaðan er gefin áður en rökræður fara fram. Vogar eru mikilvægir því Vogar eru mikilvægir.

Pistill Guðmundar var skrifaður af beiðni vinar síns og átti að útskýra það starf sem fer fram á Vogum og mikilvægi þess starfs. Af þeim rúmum 800 orðum sem pistillinn telur er engu þeirra varið til að segja okkur hvað gerist á Vogum. Það er erfitt að álykta annað en að pistill Guðmundar hafi misst marks.