Um skynsemi

Kæru vinir,

Mér er annt um rökfræði. Ekki bara þurru og akademísku tegund hennar, heldur hvernig henni er beitt í daglegu lífi. Ýmsir aðilar beita henni til að sannfæra okkur um að hitt og þetta sé rétt; henni er otað til í umræðum um flugvelli, spítala, fjármál, borgarskipulag, cha-cha-cha og allt.

Vandamálið er að þeir sem beita rökfræði á almennum vettvangi fara oft illa með hana. Þeir skera að sér, tvívinna hlutina og míga upp í vindinn. Hingað til hafa þessir aðilar, sem telja stjórnmálamenn, fjölmiðlafólk, heilsugúrua, trúarleiðtoga, Marsbúa og allt, að mestu komist upp með að limlesta þessa fegurstu arfleið forngrískrar menningar.

Ég og nokkrir hjálparálfar vonumst til að binda enda á þennan harmleik. Á hverjum virkum degi ætlum við að taka fyrir eina staðhæfingu, færslu eða frétt og benda á rökvillur í málflutningi hennar. Við munum styðja mál okkar með tilvísunum um nákvæmlega hvaða rökvilla er framin hverju sinni.

Til þessa þurfum við hjálp ykkar.

Ef þú lest frétt, yfirlýsingu, markaðsherferð, auglýsingu eða hvaða opinberu samskipti sem er þar sem leiðin milli A og B er ekki ljós, sendu okkur þá póst.

Ef þú vilt, eins og við, hefja umræðu á Íslandi upp á það stig að fólk tali um málefni en fari ekki endalaust í manninn, sendu okkur þá póst.

Ef þú sérð eitthvað, segðu þá eitthvað.

Sendu okkur póst á

rokvillur@gmail.com