<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/05/17-poster.jpg"></p>

Það er sannleikur viðurkenndur um víða veröld, að börn eru hræðileg og óþolandi. Eins og Eurovision. En líkt og með söngkeppnina virðist vera stemming í þjóðfélaginu fyrir að halda upp á þau og þylja í sífellu fyrir munni sér í hálfum hljóðum hvað þau eru frábær til að reyna að sannfæra sig um að maður trúi því sjálfur. Oft eru það foreldrar sem að mótmæla þessari sjálfsögðu athugasemd og benda yfirleitt á afkvæmið sitt sem mótdæmi, klæða það upp í trúðagalla, láta það dansa eins og drukkinn björn í ljótu tútúpilsi og spyrja hvort þetta sé ekki sætt? Margir af mínum bestu vinum hafa látið sannfærast og finnst núna eitthvað að hugmyndinni minni um að gera alla einstaklinga yngri en 20 ára útlæga á eyðieyju. En ég veit betur. Ég hef unnið á kassa í stórmarkaði. Ég hef ferðast í flugvél. Ég hef farið í barnaafmæli. Ég veit að börn eru hávær og illa menntuð og að þau hafa ekki hugmynd um hver Charlie Kaufman er og að þau hafa vondan húmor…​ og ef að þetta eru virkilega skilyrðin sem ég vil að gott fólk uppfylli þá getur verið að mér líki illa við talsvert fleira fólk en bara börn.

Auðvitað er ekkert skrýtið að mér komi ekki vel saman við skapofsafulla dverga þessa heims, af því að ég er rétt tæplega hrópmerkt ára gamall einhleypur strákur sem hefur miklu meira gaman af bjór og góðu spjalli um fjölundirþýð föll heldur en…​ hverju það er sem börn hafa gaman af, segjum skærum litum og drasli á hreyfingu. Við eigum voða fátt sameiginlegt. Nú er ég samt alvöru manneskja, en ekki gangandi afsökun fyrir lélega brandara eins og persóna í vondum grínþætti, þannig að viðhorf mitt til barna er ekki alveg jafn einfalt og þetta. Ég hef alveg hitt einstaka krakka sem mér hefur fundist skemmtilegur. Og á einstaka skammlífum stundum hef ég hugsað út í hvernig það væri að eiga sjálfur börn, hvað þau myndu heita, hvar við myndum búa og hvað ég myndi reyna að kenna þeim. Ég segi skammlífum augnablikum, af því að á meðan þeim stendur rekst ég óhjákvæmilega á það eina sem er verra en lítið barn. Allar vangaveltur um möguleg afkvæmi eru fljótar að víkja fyrir tilhugsuninni um að ég geti aldrei átt nóg af getnaðarvörnum þegar ég rekst á foreldra lítils barns.

Ef að það er með einhverju móti hægt að færa rök fyrir því að fólkið sem við umgöngumst hafi áhrif á hegðun okkar og persónuleika, þá er það hægt með að benda á foreldra ungra barna. Þeir eru upp til hópa hundleiðinlegir besservisserar sem að halda að þeir ráði og að þeirra skoðun sé rétt. Sem er ekkert skrýtið þegar að þeir fá að venjast þessu öllu í daglega lífinu í samskiptum sínum við manneskju sem hefur tveggja til þriggja ára reynslu af heiminum. Þess vegna hlakkaði mig smá til þess að sjá The Children, af því að hún virtist lofa því að hefðbundin viðhorf mín til barna fengju uppreisn æru í bland við að foreldrar ungra barna myndu deyja á óöfundsverðan hátt. Hvað vill maður yfir höfuð meira frá bíómynd?

<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/05/17-pakkar.jpg"> Maður veit bara að þetta á eftir að enda með tárum.</p>

Engin mynd sem ég hef séð hingað til hefur náð að vekja með mér jafn mikinn óhug og hrylling og The Children gerir á fyrstu tíu mínútum sínum, sem snúast að mestu um að fjögur lítil börn hlaupa öskrandi og gargandi út um allt á meðan að foreldrar þeirra og stóra systir sitja hjá. Eitt af hlutverkum hryllingsmynda er að láta manni líða illa og ég get ekki sagt annað en að ég hafi þjáðst á þessum tíu mínútum. The Children er jólamynd í sama skilningi og Die Hard, það er að segja að hún gerist á jólunum frekar en að hún hafi eitthvað með jesúbarnið og boðskap þess að gera, og segir frá tveim fjölskyldum sem ætla að eyða jólunum saman á stóru setri úti í sveit.

Börnin sem að titill myndarinnar vísar til eru fjögur og skiptast jafnt á sitt hvora fjölskylduna. Foreldrarnir í þeirri sem að á sveitasetrið eru fjárhaglega vel stæðir nýaldaruppar sem eru hættir að vinna og ætla að ala krakkana sína upp hjá sér með Pavlovsku kerfi sem byggir á að veita gullstjörnur fyrir góða hegðun. Foreldrarnir í hinni fjölskyldunni eru svo venjulegri týpur, þau eru í sínu öðru hjónabandi og krakkarnir skiptast jafnt á þau tvö, fyrir utan að mamman á líka unglingsdóttur í stuttu pilsi frá fyrra hjónabandi. Unglingurinn sver sig í ætt við sína líka, sem þýðir að hún nennir engan veginn að vera þarna, er alltaf fúl á móti og oft að fyrra bragði líka, og eyðir fyrri partinum af myndinni í að reyna að komast í stórt partí í nágrenninu sem hún má ekki fara í. Hún er líka sá karakter sem kemst næst því að vera aðalpersóna myndarinnar, en The Children er frekar mynd um hóp af fólki en einstaka persónur.

Eftir að hafa horft á börnin hlaupa óstýrilega um sviðsmyndina í tíu mínútur var ég tilbúinn að skera af mér puttana og stinga þeim í eyrun á mér svo að ég þyrfti ekki að hlusta á lætin í þeim lengur. Blessunarlega kom ekki til þess af því að eitt af öðru fengu börnin einhverja leiðindapest. Sjúkdómseinkenni hennar lýsa sér þannig að sjúklingur ælir hljóðlega úti í horni, kvartar yfir kulda, starir löngum stundum út í tómið og setur upp hlutlaust pókerfés, áður en hann tekur til við að myrða alla í kringum sig á hugmyndaríkan hátt sem að leyfir aðstandendum engu að síður að halda að hann sé saklaus. The Children er svona jólablanda af The Omen og 28 Days Later, nema að í henni eru fjórir illir krakkar en ekki bara einn, og krakkarnir sýna töluvert meiri sjálfstjórn við illa iðju sína en maraþonzombíarnir.

<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/05/17-tjald.jpg"> Sagði það.</p>

Ég held að það megi álykta að höfundar The Children hafi ákveðnar og fastmótaðar skoðanir á barnauppeldi og þeim aðferðum sem henta best til þeirra verka. Þó að þeir séu ólíkar týpur sín á milli, þá eru allir foreldrarnir í The Children frekar rólegir og eru ekki mikið fyrir að hefta börnin sín með því að segja þeim að halda kjafti og borða grænmetið sitt. Þannig að börnin eru gott sem aldrei skömmuð þegar þau gera eitthvað af sér, þau fá að grenja við matarborðið lengur en mér þótti þægilegt, og meira að segja kippir annar pabbinn sér tiltölulega lítið upp við að sonur hans skeri í upphandlegginn á sér og hlaupi út. Ég held að í dentid hefði ég verið stoppaður af talsvert áður en að ég hefði náð að vopna mig með kutum og eggvopnum og það sama virðist eiga við fólkið á bakvið The Children, af því að aðalboðskapur myndarinnar virðist vera að ef að þú agar barnið þitt ekki almennilega þá mun það myrða þig á hrottafullan hátt með snjósleða einhvern daginn.

Eitt áhugavert í þessu samhengi er hlutverk fúla unglingsins í stutta pilsinu. Hún er á einhversskonar millistigi, af því að hún finnur sig hvorki með börnunum né með fullorðna fólkinu og hún er að mestu laus við uppeldistilraunir þeirra. Ef eitthvað þá er hún fulltrúi minn og minna í þessari mynd. Hvað sem því líður, þá er hún fyrsta manneskjan sem áttar sig á að það er eitthvað að börnunum og að það eru þau sem að standa á bakvið voðaverkin á síðustu stundum, og lengi framanaf er hún eina manneskjan sem að reynir að verja sig og bjarga þeim eftir eru. Nú er The Children bresk mynd og það er skemmtilegt að bera þetta viðhorf hennar til unglinga saman við það sem við sáum í landa hennar <a href="http://hrollur.wordpress.com/2009/05/01/15-eden-lake/">_Eden Lake_</a> fyrir tveim vikum, þar sem unglingarnir voru rót alls ills og ekki viðreisnar von. Hérna er unglingurinn eina manneskjan með viti á svæðinu og passar upp á þá sem eldri eru, og það er nokkuð freistandi að lesa ákveðna jákvæðni og velvild í garð ungu kynslóðarinnar úr þessari persónu. Ég held samt að málið sé flóknara en svo en ég get ekki útskýrt af hverju án þess að gefa algerlega upp endinn að myndinni og eyðileggja hana þar með fyrir öllum öðrum, sem væri hrein synd.

Ég var alveg helvíti ánægður með The Children. Hún er næstum eins og hryllingsmyndaútgáfan af Seinfeld í því að hún er mynd um ekki neitt; það er ekkert stórt plott sem að drífur myndina áfram, heldur bara ofbeldisverk hóps af litlum börnum gagnvart foreldrum sínum. Eins og góður Seinfeld þáttur gengur það líka alveg upp, því mér er svo sem alveg sama að það var ekkert meira í gangi en þessar öfgakenndu fjölskylduerjur. Þar að auki fær The Children mörg prik í hattinn fyrir að ná því fjarstæðukennda markmiði að fá mann til að halda með fólki sem þarf að drepa börn til að halda lífi. Ef að það er ekki aðgöngumiðans virði, þá veit ég ekki hvað er það.

<p align="center"><strong>

Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>

Óheppinn maður vaknar í helli og þarf að bjarga sér undan ófríðum fjöndum í Eden Log.

<p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=mXP72WbxSKQ&hl=fr&fs=1]</p>