<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/06/19-poster.jpg"></p>

Hefurðu heyrt góðu fréttirnar um fágaða rúmfræði? Nei, gerðu það, ekki loka hurðinni svona fast á fótinn minn. Það er óttalega sárt. Jæja þá. Ég stend þá bara hérna fyrir utan, í kuldanum. Ég get alveg hrópað staðreyndir um hjásvipugrúpur samheldinna knippa á fáguðum rúmum inn um bréfalúguna þína! Vissirðu til dæmis að þær eru endanlega víðar ef að rúmið er þjappað?

Ahem…​ afsakið þetta. Þessa dagana á ég aðeins erfiðara en venjulega með að slíta mig frá útsýninu úr imaginæra loptskipinu. Þetta ástand lýsir sér svo sem ekkert öðruvísi en venjulega - ég er oft þögull og viðutan í hádegismat með krökkunum, ég byrja oft að útskýra smáatriði í verulega abstrakt stærðfræði fyrir hverjum sem er, og ég vakna á næturna við að hugsa um hjásvipugrúpur - en ástandið um þessar stundir er dýpra en oft áður og ég slít mig ekki svo glatt frá því. Sem er alveg fínt þannig séð, af því að ég á að skila mastersritgerðinni minni eftir tvær vikur og halda fyrirlestur eftir þrjár, svo að vinnugleðin er ágætlega tímasett.

Sem dæmi um þessa óstjórnlegu hamingju var klukkan rétt í þessu að verða tíu að kvöldi hérna. Ég er búinn að ætla að taka frá tíma í allan dag til að byrja að skrifa fyrir ykkur, en það var fyrst að takast núna. Fyrstu níu vökustundirnar fóru í að sitja inni á bókasafni og skrifa fyrsta uppkast að síðasta kaflanum að ritgerðinni minni, svo var ég sirka klukkutíma að dúlla mér heim, þar sem ég settist strax á gólfið inni í herbergi með Birthday Massacre og Decemberists í gangi og fór að fikta í heimildum og hreinskrifa meira. Það var fyrir þrem tímum síðan, og mér finnst dagurinn hafa liðið svo hratt að ég er ekki viss um að ég hafi í raun og veru farið fram úr rúminu.

Auðvitað er sitt hvað á bakvið allan þennan metnað. Mánuðurinn sem er að líða er hugsanlega sá síðasti sem ég eyði sem óbreyttur námsmaður, og mig langar að klára þann pakka. Þar ofan á er einfaldlega fokk gaman þegar að hlutirnir ganga vel, og þeir ganga vel núna. Og að lokum langar mig að borða mat áfram. Þó ég hafi ekkert sérstaklega gaman af því að borða mat dags daglega, þá er ég orðinn ansi vanur því að nærast, og ég fæ ekki námslán fyrir mat nema að ég skili einingum. Maður getur alltaf treyst á LÍN, og ósagðar hótanir um vosbúð, til að koma manni fram úr rúminu á morgnanna. Allur þessi vinnu og forðast-að-verða-heimilislaus-og-þurfa-að-skera-fólk-til-að-lifa-af pakki er þó óneitanlega talsvert stressandi. Jafnvel meira stressandi en vor daglegur bjór og Electro Shock Blues hlustun vega upp. Þess vegna er ég mjög feginn að ég hef afsökun til að horfa á myndir eins og Poultrygeist: Night of the Chicken Dead.

<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/06/19-argy.jpg"> Arbie á myndlíkingarkrossinum með frönskum texta.</p>

Núna þegar ég hugsa um það þá hljómar söguþráður Poultrygeist eins og að hann sé eins og hálfs tíma löng útgáfa af hrekkjavökuþætti af Simpsons. Hetja Poultrygeist er ungi maðurinn Arbie, sem er ,,bara ungur maður að reyna að fóta sig í þessari villtu, villtu veröld`` eins og hann lýsir sjálfur fyrir yfirmanni á skyndibitastað, áður en hann grípur í skyrtu yfirmannsins og öskrar að hann vanti vinnu. Af hverju langar Arbie að vinna á skyndibitastað sem að svipar meira en lítið til frægrar keðju er kennd er við fiðurfénað og ákveðið fylki í Bandaríkjunum? Jú, af eðlilegustu ástæðu í heimi; menntaskólakærastan hans, hún Wendy, breyttist í vinstrisinnaða frjálslynda hippalesbíu á einu önninni sinni í háskóla og elskar Arbie ekki lengur. Þar sem hún var að mótmæla opnun þessa skyndibitastaðar þegar að Arbie hitti hana aftur og komst að þessari umbreytingu, þá ákvað hann að byrja að vinna við eitthvað sem að Wendy hatar, af því að það er víst eitthvað sem að maður gerir þegar að stelpur hætta með manni. Persónulega finnst mér einfaldara að fá mér bjór og hlusta á Elliott Smith, en við höfum öll okkar leiðir til að díla við daglegt líf.

Þetta er allt gott og blessað en hefur enn sem komið er ekkert svo mikið að gera með hryllingsmyndir, sem eru jú ástæðan fyrir að við förum fram úr rúminu á morgnana. Sem betur fer var kjúklingastaðurinn sem Arbie ræður sig til reistur á fornum indiánagrafreit, og samanlögð gremja og bölvun indiánana sem að hafa verið hlunnfarnir í margar aldir og kjúklingana sem að lifa og deyja í litlum búrum til þess eins að enda í djúpsteikingapotti verða til þess að kjúklingazombíar rísa upp frá dauðum og rífa sig í gegnum starfsmenn, kúnna og mótmælendur. Það er því undir Arbie komið að bjarga sjálfum sér og Wendy frá árás hinna gaggandi dauðu, því hvað eru ástin og lífið annað en vonin um að fyrrverandi kærastur sverji af sér lesbíska lifnaðarhætti og taki saman við mann aftur?

Til að undirstrika þessa hrottalegu bjartsýni og heilbrigðu lifnaðarhætti eru söng-og-dansnúmer sem er dreift inn í myndina með reglulegu millibili, svipað og í Repo! The Genetic Opera. Nei, bíddu, strikum þetta út. Lögin virka frekar eins og í The Happiness of the Katakuris (sú mynd er með skrýtnari andskota sem þú munt hafa ánægju af að sjá ef þú leggur í hana), sem þýðir bæði að þau eru ekki ömurleg eins og í Repo! og að þau skapa mjög absúrd stemmingu. En Poultrygeist er absúrd út í gegn - þetta er mynd um kjúklingazombía þar sem að langsóttar samlíkingar, ber brjóst, kúk og pisshúmor, aflimanir og sönglög skoppa upp með svipaðri tíðni - og dansnúmerin sóma sér prýðisvel meðal jafningja.

<p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/06/19-whynot.jpg"> Af hverju? Af hverju í fjandanum ekki?</p>

Ein af ástæðunum fyrir að ég byrjaði á þessu dútli er að ég er frekar nýbúinn að uppgötva ást mína á hryllingsmyndum - fyrsta skiptið sem ég man eftir að hafa horft vísvitandi á margar hryllingsmyndir á stuttum tíma var á hrekkjavökunni í hittífyrra - og mig langaði að læra meira um kúltúrinn á bakvið þær. Þannig ég ákvað að skrifa eina sirka 2000 orða ritgerð á viku um hryllingsmyndir, í staðinn fyrir, segjum, að fara á Wikipedia. Ég get samt ekki sagt annað en að planið virki ágætlega, því í gegnum þetta rugl er til dæmis búið að benda mér á gömlu Vincent Price myndirnar, og í gegnum Poultrygeist uppgötvaði ég Troma. Troma er sjálfstætt kvikmyndaver sem að hefur víst framleidd költ-hryllingsmyndir síðustu þrjátíu ár, án þess að ég hafi nokkur tímann heyrt um þær. Miðað við titlana (Surf Nazis Must Die, Redneck Zombies, Rabid Grannies, svo fá dæmi séu tekin) á ég samt von á góðu. Poultrygeist er nýjasta mynd Troma, en myndirnar þeirra hafa oft skartað ungu og upprennandi hæfileikafólki, eins og Kevin Costner, Samuel L. Jackson, og Matt Stone og Trey Parker úr South Park.

Þegar að fólkið á bakvið Troma lýsir sér sem sjálfstæðum framleiðendum, þá meina þau allt sem þau segja. Til að gera Poultrygeist settu leikstjórinn og konan hans pening úr eftirlaunasjóðnum sínum í myndina, og mikið af fólkinu á bakvið myndina vann annað hvort ódýrt eða frítt, og gistu sirka 70 saman í pínulítilli kirkju með aðeins eitt sameiginlegt klósett á mill sín á meðan tökum stóð. Ég hef aðeins lítið svart hjarta, sem ég geymi undir lausri parketfjöl í herberginu mínu og gerir mig hægt og rólega sturlaðann með djöfullegum slætti sínum, en því ylnar undir rótum við að heyra af fólki sem að lagði ótrúlegan skít og vosbúð á sig til að gera mynd um zombíkjúklinga. Hvenær hef gert eitthvað slíkt? Jafnvel Bob Geldof tók sig til og hélt tónleika til að binda enda á dauðann, en það eina sem ég hef gert er að læra sí betur óttalega óskiljanlegt rugl sem, fyrir utan frjálsa nykumótla yfir heiltölurnar sem maður brúkar jú í hvert skipti þegar maður fer að versla, hefur enga hagnýtingu í daglega lífinu.

Ég hef kannski sóað lífi mínu í vigurrúm og fágaðar varpanir, en ef við eigum að vera hreinskilin þá kann ég ekkert annað og myndi seint temja mér nýja siði, svo ég sit líklegast uppi með fenginn hlut. Ef að eitthvað gerir menntalífið hins vegar bærilegra, þá eru það myndir eins og Poultrygeist. Jafnvel útjaskaðasta hóra með glópagullshjarta getur ekki annað en brosað gegn flóðbylgjunni af ólíklegum röksemdarfærslum, vondum bröndurum, afturgengnum kjúklingum, klisjum, ódýrum tæknibrellum, aflimunum, hrottalegum dauðadögum, gleraugnaglámum og slefandi hundkvikindum sem flaðra uppum mann allan frá fyrstu mínútu Poultrygeist. Þetta er myndin sem að maður setur í gang eftir langan dag sem að entist í heila viku, þegar að djúpþreytan sverfur að, og maður vill ekkert nema að fá að hugsa um eitthvað annað í smástund og drekka smá bjór með. Poultrygeist er mynd fyrir daginn þegar að ekkert gekk upp og vann vantar bara að hlæja smá, og Poultrygeist er starfi sínu gríðarlega vel vaxin.

<p align="center"><strong>

Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>

,,Svekk og tyggjó`` verða einu orðin sem duga til að lýsa reynslu margra manna í aftyppunarhryllingnum <a href="http://en.wikipedia.org/wiki/Teeth_(film)">_Teeth_</a>.

<p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=yH8yuld4DUE&hl=fr&fs=1&]</p>

    Afsakið hlé

    Af ótrúlega flóknum og kettlingadrepandi ástæðum verður seinkun á Poultrygeist umfjölluninni. Á mjög tæknilegu máli gleymdi ég hleðslutækinu að fartölvunni - einu tölvunni sem ég hef aðgang að - uppi í skóla áðan, og þar sem ég bý í Frakklandi þar sem að fólk tekur helgarfríið sitt mjög alvarlega, þá er skólinn lokaður um helgar.

    Svo gæti farið að ég neyðist til að eyða helginni í að lesa bækur, sanna drasl fyrir lokahlutann af mastersritgerðinni minni, og almennt vera gríðarlega hamingjusamur án aðgangs að tölvu eða interneti.

    Þangað til að ég kemst í hleðslutækið mitt og Poultrygeist kemur upp, þá getið þið horft á Time Trumpet og Stewart Lee’s Comedy Vehicle, sem eru sjáanlegir í heild sinni á Youtube. Þeir eru kannski nær óþekktir breskir grínþættir sem hafa lítið sem ekkert að gera með hrylling, en þeir eru mannbætandi andskoti engu að síður.

      <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/05/18-poster.jpg"></p>

      Af öllum þeim tíma sem ég eyddi í að spila tölvuleiki þegar ég var yngri, sem var nokkurn veginn samfellt milli 6 og 18 ára aldurs, þá er aðeins eitt augnablik sem að stendur upp úr að einhverju leyti. Ég held að ég hafi verið sirka 14 ára. Vinir foreldra minna voru í heimsókn og ég þurfti að gera eitthvað með syni þeirra sem var svipað gamall og ég. Þetta var eitthvað sem ég nennti engan veginn að gera, af því að ég var í miðju mikilvægu verkefni í System Shock 2. Fyrir þá sem ekki vita er það einn besti tölvuleikur sem að hefur verið gerður. Að reyna að útskýra af hverju væri efni í litla ritgerð og þar sem að við erum nú þegar byrjuð á einni slíkri held ég að við verðum að láta það liggja á milli hluta í þetta skiptið. Látum nægja að segja þetta: Í System Shock 2 eru aldrei öruggur, sama hversu oft þú hefur dritað niður alla í kringum þig, og það eru zombíar með skrúflykla útum allt.

      Alla vega, ég ákvað að gera gott úr ástandinu og fór að sýna stráknum hvernig leikurinn virkaði. Ég var búinn að koma mér fyrir úti í einhverju horni og hélt að ég gæti slappað af og byrjaði að útskýra hvað markmiðið væri eiginlega, hvað hinir og þessir takkar gerðu, og af hverju snargeðveik tölva gargaði í hátalarana í kring eins og blekuð manneskja í heimsins besta fyllerístrúnósímtali. Að lokum langaði strákinn að prófa, svo ég leyfði honum það. Hann snéri sér við, og horfði framan í uppvakning með skrúflykil sem hafði læðst aftan að okkur sem að stundi hátt lengi áður en hann byrjaði að lemja. Stuttu seinna komu foreldrar okkar hlaupandi inn af því að innan úr eldhúsi höfðu þau heyrt undarlega stunu og svo skerandi hræðsluöskur í okkur tveim fylgt af endurtekinni skothríð úr sjálfvirkum riffli. Svona eins og í atriðinu þarna í Aliens. Þið vitið hverju ég á við.

      Nú er ég alveg á þeirri skoðun að tölvuleikir séu ekkert síðri afþreying en hvað annað, og að þeir hafi alveg sama menningarlega gildi og hvaða kvikmynd, plata eða skáldsaga sem er. Mér finnst samt undarlegt að til að finna fleiri góðar minningar um tölvuleikjaspil þurfi ég að grafa talsvert dýpra en til þess að finna bíómyndir, diska eða bækur sem að ég hef tengst í gegnum tíðina. Hluti af ástæðunni held ég að sé að þó að maður stýri aðalpersónunni í tölvuleikjum beint, þá eru þeir ópersónulegri en aðrir miðlar. Þeir eiga einhvern veginn erfiðara með að brjóta niður múrinn á milli þess sem er á skjánum og raunveruleikans, og gengur því ekki jafn vel að fá okkur til að tengjast þeim tilfinningalegum böndum. Hins vegar er ljóst að það eru manneskjur þarna úti sem að er ósammála þessari skoðun minni, af því að fyrir tveim árum hóuðu nokkrar þeirra sig saman og gerðu Eden Log.

      <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/05/18-kross.jpg"> Skyldujesútilvísunin. Sérhver mynd þarf að hafa eina.</p>

      Eden Log byrjar mjög rólega. Það fyrsta sem við sjáum gaur sem að vaknar nakinn í drullupolli djúpt inni í helli og veit ekki hvernig að hann komst þangað eða hver hann er. Eitthvað verður hann samt að hafa sér fyrir stafni, þannig að hann hífur sig upp úr pollinum og skríður gegnum hellinn í áttina að einu ljósglætunni í nágrenninu, sem blikkar í sífellu eins og viti eða draslið ofan á Perlunni. Þetta atriði tekur fimm mínútur og gefur ágæta hugmynd um hversu grípandi restin af myndinni er. Að því loknu finnur gaurinn okkar, sem man ekki hvað hann heitir svo að við vitum það ekki heldur, einhverja larfa til að hylja skömm sína og hurð sem að liggur inn í mikla ganga og ranghala.

      Smátt og smátt kemur í ljós að gaurinn okkar er neðst í einhversskonar byrgi sem að teygir sig nokkrar hæðir ofan í jörðina. Það eru undarlegar trjárætur út um alla veggi og ekki nokkur manneskja á ferli, en um myrkrið ráfa undirmennskar verur sem að urra á allt sem að á vegi þeirra verður og virðast vilja gæða sér á gaurnum. Í partíið mæta þar að auki vel vopnaðir sérsveitarmenn í alvöru óeirðagír, sem eru að leita að einhverju eða einhverjum í göngunum og hafa heilbrigðan metnað fyrir að drepa allt annað. Á meðan að minnislausi gaurinn vinnur sig hægt og rólega upp hæðirnar með það að markmiði að lifa af og komast upp á yfirborðið lærum við að neðanjarðarbyrgið var eins konar tilraunastofa og að tilgangur hennar hafði eitthvað að gera með ræturnar sem eru úti um allt, en eitthvað klikkaði sem útskýrir mannleysið, sérsveitarmennina og undirmennska mannætuöskurkórinn.

      Eftir að gaurinn rekst á sexí plöntufræðing sem að er búin að fela sig í göngunum síðustu daga byrja púslin að detta á sinn stað; úr trjárótunum sem að veggfóðra byrgið má vinna öflugan orkugjafa með því að kúpla þeim saman við fólk, en því miður eru ræturnar eitraðar og gefa frá sér efni sem að breytir venjulegri millistéttarmanneskju sem hlustar á Rás 2, hefur ekkert gaman af Lost og hefur sína skoðun á stjórnmálum í undirmennska mannætu. Gaurinn okkar var einn af sérsveitarmönnunum, en er bæði búinn að mynda einstaka tengingu við trjáræturnar og sýkjast af eitrinu, og minnisleysið, pollabuslið og nektin í byrjuninni eru orsök einhvers kasts sem að eitrið olli og hefur endurtekið sig nokkrum sinnum síðan þá. Þegar við erum búin að læra allt þetta endar myndin á tilraun til…​ einhvers. Það er örugglega voða djúpt og svoleiðis.

      <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/05/18-kiss.jpg"> Af ástæðum sem tæki of langan tíma að útskýra er þetta eina atriðið í myndinni sem að er þess virði að horfa á.</p>

      Mér var öskrandi sama um allt sem gerðist í Eden Log. Ef að geimfararnir sem eru að fikta í Hubble sjónaukanum í þessum töluðu orðum hefðu litið í áttina að frönsku ölpunum á sunnudaginn hefðu þeir getað séð algjört skeytingarleysi mitt gagnvart Eden Log af sporbraut. Eden Log þjáist af nákvæmlega sama vandamáli og tölvuleikir, að maður tengist ekki nokkrum hluta hennar tilfinningalegum böndum. Þar sem að tölvuleikir gefa manni hins vegar eitthvað að gera leiðist manni ekki á meðan að maður spilar þá, en þegar að Eden Log dröslast í gegnum hverja nýja sögufléttu á eftir annarri hefur maður ekkert að gera nema að sitja og bíða eftir að hún klárist loksins.

      Ég þori ekki alveg að fullyrða um aðalástæðuna fyrir að Eden Log er jafn mikil hlutleysa og raun ber vitni. Það þarf þorp til að ala upp barn eða gera vonda bíómynd, en til að taka eitthvað dæmi þá hjálpar ekkert að allir aukaleikarnir í myndinni eru svo lélegir að kústskafti veifað af handahófi hefði verið meira sannfærandi persóna en þeir allir samanlagt. Hvað stærsta vandamálið við Eden Log varðar þá grunar mig sterklega að enginn sem að kom að gerð hennar hafi átt mannleg samskipti síðustu árin, en að þau hafi í staðinn öll setið læst inni í aðskildum klefum með ekkert annað fyrir félagsskap en gamlar Barbídúkkur og hugsanlega slitna taudruslu. Alla vega hefur enginn höfundanna minnsta sans fyrir hvernig venjulegt fólk fúnkerar eða hvað liggur á hjarta þeirra.

      Næstum allir sem ég þekki eiga eitt sameiginlegt: fyrir þeim er ekki daglegt brauð að vakna minnislausir og naktir í polli djúpt inní helli og verða fyrir árásum frá sérsveitarmönnum og mannætum. Ég held meira að segja að ef að þær aðstæður kæmu upp myndu vinir mínir og kunningjar hafa einhverjar spurningar um hver fjandinn væri í gangi. Aðalpersóna Eden Log hefur engar slíkar áhyggjur. Hann hefur ekki tíma fyrir svoleiðis kjaftæði. Hann virðist reyndar ekki hafa tíma til að sýna nein mannleg svipbrigði yfir höfuð þegar út í það er farið. Hann er fullkomin mannleg hlutleysa, eins og tölvuleikjakarakter sem enginn stýrir, og þó að það að kvikmynda hann skoppa á milli veggja á leið sinni frá A til B í hundrað mínútur teljist tæknilega til bíómyndar, þá er að horfa á þá bíómynd meiri tímasóun en að smyrja hunangi yfir sig allan og standa nakinn úti á strætóstoppistöð til að reyna að hitta sætar stelpur.

      <p align="center"><strong>

      Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>

      Titillinn segir allt sem segja þarf: <a href="http://en.wikipedia.org/wiki/Poultrygeist">_Poultrygeist: Night of the Chicken Dead_</a>.

      <p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=bLp1JJWJ5l4&hl=fr&fs=1]</p>

        <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/05/17-poster.jpg"></p>

        Það er sannleikur viðurkenndur um víða veröld, að börn eru hræðileg og óþolandi. Eins og Eurovision. En líkt og með söngkeppnina virðist vera stemming í þjóðfélaginu fyrir að halda upp á þau og þylja í sífellu fyrir munni sér í hálfum hljóðum hvað þau eru frábær til að reyna að sannfæra sig um að maður trúi því sjálfur. Oft eru það foreldrar sem að mótmæla þessari sjálfsögðu athugasemd og benda yfirleitt á afkvæmið sitt sem mótdæmi, klæða það upp í trúðagalla, láta það dansa eins og drukkinn björn í ljótu tútúpilsi og spyrja hvort þetta sé ekki sætt? Margir af mínum bestu vinum hafa látið sannfærast og finnst núna eitthvað að hugmyndinni minni um að gera alla einstaklinga yngri en 20 ára útlæga á eyðieyju. En ég veit betur. Ég hef unnið á kassa í stórmarkaði. Ég hef ferðast í flugvél. Ég hef farið í barnaafmæli. Ég veit að börn eru hávær og illa menntuð og að þau hafa ekki hugmynd um hver Charlie Kaufman er og að þau hafa vondan húmor…​ og ef að þetta eru virkilega skilyrðin sem ég vil að gott fólk uppfylli þá getur verið að mér líki illa við talsvert fleira fólk en bara börn.

        Auðvitað er ekkert skrýtið að mér komi ekki vel saman við skapofsafulla dverga þessa heims, af því að ég er rétt tæplega hrópmerkt ára gamall einhleypur strákur sem hefur miklu meira gaman af bjór og góðu spjalli um fjölundirþýð föll heldur en…​ hverju það er sem börn hafa gaman af, segjum skærum litum og drasli á hreyfingu. Við eigum voða fátt sameiginlegt. Nú er ég samt alvöru manneskja, en ekki gangandi afsökun fyrir lélega brandara eins og persóna í vondum grínþætti, þannig að viðhorf mitt til barna er ekki alveg jafn einfalt og þetta. Ég hef alveg hitt einstaka krakka sem mér hefur fundist skemmtilegur. Og á einstaka skammlífum stundum hef ég hugsað út í hvernig það væri að eiga sjálfur börn, hvað þau myndu heita, hvar við myndum búa og hvað ég myndi reyna að kenna þeim. Ég segi skammlífum augnablikum, af því að á meðan þeim stendur rekst ég óhjákvæmilega á það eina sem er verra en lítið barn. Allar vangaveltur um möguleg afkvæmi eru fljótar að víkja fyrir tilhugsuninni um að ég geti aldrei átt nóg af getnaðarvörnum þegar ég rekst á foreldra lítils barns.

        Ef að það er með einhverju móti hægt að færa rök fyrir því að fólkið sem við umgöngumst hafi áhrif á hegðun okkar og persónuleika, þá er það hægt með að benda á foreldra ungra barna. Þeir eru upp til hópa hundleiðinlegir besservisserar sem að halda að þeir ráði og að þeirra skoðun sé rétt. Sem er ekkert skrýtið þegar að þeir fá að venjast þessu öllu í daglega lífinu í samskiptum sínum við manneskju sem hefur tveggja til þriggja ára reynslu af heiminum. Þess vegna hlakkaði mig smá til þess að sjá The Children, af því að hún virtist lofa því að hefðbundin viðhorf mín til barna fengju uppreisn æru í bland við að foreldrar ungra barna myndu deyja á óöfundsverðan hátt. Hvað vill maður yfir höfuð meira frá bíómynd?

        <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/05/17-pakkar.jpg"> Maður veit bara að þetta á eftir að enda með tárum.</p>

        Engin mynd sem ég hef séð hingað til hefur náð að vekja með mér jafn mikinn óhug og hrylling og The Children gerir á fyrstu tíu mínútum sínum, sem snúast að mestu um að fjögur lítil börn hlaupa öskrandi og gargandi út um allt á meðan að foreldrar þeirra og stóra systir sitja hjá. Eitt af hlutverkum hryllingsmynda er að láta manni líða illa og ég get ekki sagt annað en að ég hafi þjáðst á þessum tíu mínútum. The Children er jólamynd í sama skilningi og Die Hard, það er að segja að hún gerist á jólunum frekar en að hún hafi eitthvað með jesúbarnið og boðskap þess að gera, og segir frá tveim fjölskyldum sem ætla að eyða jólunum saman á stóru setri úti í sveit.

        Börnin sem að titill myndarinnar vísar til eru fjögur og skiptast jafnt á sitt hvora fjölskylduna. Foreldrarnir í þeirri sem að á sveitasetrið eru fjárhaglega vel stæðir nýaldaruppar sem eru hættir að vinna og ætla að ala krakkana sína upp hjá sér með Pavlovsku kerfi sem byggir á að veita gullstjörnur fyrir góða hegðun. Foreldrarnir í hinni fjölskyldunni eru svo venjulegri týpur, þau eru í sínu öðru hjónabandi og krakkarnir skiptast jafnt á þau tvö, fyrir utan að mamman á líka unglingsdóttur í stuttu pilsi frá fyrra hjónabandi. Unglingurinn sver sig í ætt við sína líka, sem þýðir að hún nennir engan veginn að vera þarna, er alltaf fúl á móti og oft að fyrra bragði líka, og eyðir fyrri partinum af myndinni í að reyna að komast í stórt partí í nágrenninu sem hún má ekki fara í. Hún er líka sá karakter sem kemst næst því að vera aðalpersóna myndarinnar, en The Children er frekar mynd um hóp af fólki en einstaka persónur.

        Eftir að hafa horft á börnin hlaupa óstýrilega um sviðsmyndina í tíu mínútur var ég tilbúinn að skera af mér puttana og stinga þeim í eyrun á mér svo að ég þyrfti ekki að hlusta á lætin í þeim lengur. Blessunarlega kom ekki til þess af því að eitt af öðru fengu börnin einhverja leiðindapest. Sjúkdómseinkenni hennar lýsa sér þannig að sjúklingur ælir hljóðlega úti í horni, kvartar yfir kulda, starir löngum stundum út í tómið og setur upp hlutlaust pókerfés, áður en hann tekur til við að myrða alla í kringum sig á hugmyndaríkan hátt sem að leyfir aðstandendum engu að síður að halda að hann sé saklaus. The Children er svona jólablanda af The Omen og 28 Days Later, nema að í henni eru fjórir illir krakkar en ekki bara einn, og krakkarnir sýna töluvert meiri sjálfstjórn við illa iðju sína en maraþonzombíarnir.

        <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/05/17-tjald.jpg"> Sagði það.</p>

        Ég held að það megi álykta að höfundar The Children hafi ákveðnar og fastmótaðar skoðanir á barnauppeldi og þeim aðferðum sem henta best til þeirra verka. Þó að þeir séu ólíkar týpur sín á milli, þá eru allir foreldrarnir í The Children frekar rólegir og eru ekki mikið fyrir að hefta börnin sín með því að segja þeim að halda kjafti og borða grænmetið sitt. Þannig að börnin eru gott sem aldrei skömmuð þegar þau gera eitthvað af sér, þau fá að grenja við matarborðið lengur en mér þótti þægilegt, og meira að segja kippir annar pabbinn sér tiltölulega lítið upp við að sonur hans skeri í upphandlegginn á sér og hlaupi út. Ég held að í dentid hefði ég verið stoppaður af talsvert áður en að ég hefði náð að vopna mig með kutum og eggvopnum og það sama virðist eiga við fólkið á bakvið The Children, af því að aðalboðskapur myndarinnar virðist vera að ef að þú agar barnið þitt ekki almennilega þá mun það myrða þig á hrottafullan hátt með snjósleða einhvern daginn.

        Eitt áhugavert í þessu samhengi er hlutverk fúla unglingsins í stutta pilsinu. Hún er á einhversskonar millistigi, af því að hún finnur sig hvorki með börnunum né með fullorðna fólkinu og hún er að mestu laus við uppeldistilraunir þeirra. Ef eitthvað þá er hún fulltrúi minn og minna í þessari mynd. Hvað sem því líður, þá er hún fyrsta manneskjan sem áttar sig á að það er eitthvað að börnunum og að það eru þau sem að standa á bakvið voðaverkin á síðustu stundum, og lengi framanaf er hún eina manneskjan sem að reynir að verja sig og bjarga þeim eftir eru. Nú er The Children bresk mynd og það er skemmtilegt að bera þetta viðhorf hennar til unglinga saman við það sem við sáum í landa hennar <a href="http://hrollur.wordpress.com/2009/05/01/15-eden-lake/">_Eden Lake_</a> fyrir tveim vikum, þar sem unglingarnir voru rót alls ills og ekki viðreisnar von. Hérna er unglingurinn eina manneskjan með viti á svæðinu og passar upp á þá sem eldri eru, og það er nokkuð freistandi að lesa ákveðna jákvæðni og velvild í garð ungu kynslóðarinnar úr þessari persónu. Ég held samt að málið sé flóknara en svo en ég get ekki útskýrt af hverju án þess að gefa algerlega upp endinn að myndinni og eyðileggja hana þar með fyrir öllum öðrum, sem væri hrein synd.

        Ég var alveg helvíti ánægður með The Children. Hún er næstum eins og hryllingsmyndaútgáfan af Seinfeld í því að hún er mynd um ekki neitt; það er ekkert stórt plott sem að drífur myndina áfram, heldur bara ofbeldisverk hóps af litlum börnum gagnvart foreldrum sínum. Eins og góður Seinfeld þáttur gengur það líka alveg upp, því mér er svo sem alveg sama að það var ekkert meira í gangi en þessar öfgakenndu fjölskylduerjur. Þar að auki fær The Children mörg prik í hattinn fyrir að ná því fjarstæðukennda markmiði að fá mann til að halda með fólki sem þarf að drepa börn til að halda lífi. Ef að það er ekki aðgöngumiðans virði, þá veit ég ekki hvað er það.

        <p align="center"><strong>

        Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>

        Óheppinn maður vaknar í helli og þarf að bjarga sér undan ófríðum fjöndum í Eden Log.

        <p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=mXP72WbxSKQ&hl=fr&fs=1]</p>

          <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/05/16-poster.jpg"></p>

          Þarna. Þetta er byrjun. Ertu ánægður núna?

          Mér þykir fyrir því að þið þurftuð að verða vitni að þessum leiðindum milli mín og sjálfs mín, en ég er bara svo óttalega óþolandi stundum. Ég var búinn að vera að rífast við sjálfan mig síðusta hálftímann eða svo, og á meðan að við vorum báðir á sama blaði um að annar bjór væri alveg málið, þá vildi ég líka ná mér í kvöldmat og horfa á lokaþátt Twin Peaks á meðan að hinn ég vildi að ég skrifaði alla vega innganginn að umfjöllun vikunnar áður. Við tók frekar undarlegt augnablik þar sem ég sakaði sjálfan mig um að vera ekki alvöru mamma mín, hljóp grátandi út og skellti hurðinni á sjálfan mig.

          Eins og með allt annað koma augnablik þegar mig langar alls ekki að skrifa þessar umfjallanir. Lífið gengur í bylgjum; sumar vikur hef ég geðveikan áhuga á náminu mínu, aðrar vikur langar mig ekkert nema að rugla um hryllingsmyndir og poppkúltúr, og svo koma tímabil þegar að mig langar lítið annað en að hanga úti í garði með hvítvínsflösku og góða bók. Akkúrat núna er eitt af þessum garðatímabilum, sem að heiðskýri himininn, lognið, sólin og sætu stelpurnar í stuttu pilsunum úti hjálpa ekkert til með. Í alvöru, þið trúið ekki hvað pilsin eru stutt. Eða kjólarnir. Og ég er nógu sunnarlega til að það sé engin þörf á neinu sokkabuxnakjaftæði, þannig að leggir sem að ná alla leið upp fá að njóta sín óáreittir. Vorið er góður tími til að vera hvítur strákur. Mmmmm…​

          Norðmenn!

          Er ég einn um að fatta ekki þessa nettu óvild Íslendinga í garð Norðmanna? Kannski er hún bara ímyndun, en mér hefur alltaf fundist bera svolítið á leiðinlegum skotum og hártogunum í garð Norðmanna í þjóðfélagsumræðunni. Hugsanlega eru gildar og góðar ástæður að baki þeim, en ekki nokkur einasti maður hefur sagt mér hverjar þær eru. Þegar að Norðmenn ber á tal í blönduðum selskap geri ég eins og hinir og hristi hnefann til himins, en mér líður alltaf eins og litlum krakka sem er að horfa á grínmynd með fullt af fullorðnu fólki og hlær að brandara af því að allir hinir gerðu það þó hann viti sjálfur ekki af hverju hann var fyndinn.

          Á yfirborðinu ætti okkur að koma best saman við Norsarana af öllum Norðurlandaþjóðunum; skattsvikaforfeður okkar komu þaðan, áfengið þar er líka geðveikt dýrt og aðeins selt í ríkisreknum verslunum, og norska er eina skandinavíska málið sem hægt er að tala án þess að skammast sín (danska er alveg off, sænska hljómar kjánalega, og á meðan að finnska er voðalega falleg er hún gjörsamlega óskiljanleg). Af einhverjum ástæðum sem enginn vill segja mér hverjar eru líkar okkur samt ekki við þá, svo þegar það kom að því að horfa á Dead Snow gerði ég þjóðlega skyldu mína og fór í bol frá Dogma, náði í kippu af bjór sem ég hafði keypt hjá Indverjanum úti á horni, og reisti hnefa til himins á meðan að Norðmenn dóu á hræðilegan hátt.

          <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/05/16-guys.jpg"> Karlkyns uppvakningafóðrið í Dead Snow.</p>

          Norðmennirnir sem um ræðir eru hópur af læknanemum sem ætla að eyða páskafríinu sínu í sumarbústað úti í skógi og ærslast um á snjósleðum og drekka sig fulla, eins og nemum er von og vísa. Þetta eru sjö manns og persónur þeirra eru jafn mismunandi og þær eru margar og eru skissaðar á yndislegan og hjartnæman hátt. Persónurnar eru: gaurinn sem var í hernum, gaurinn sem er hræddur við blóð, graði gaurinn, feiti kvikmyndanördinn, gellan með dreddana, ljóshærða gellan og gellan sem fílar kvikmyndir. Vinur minn útskýrði einu sinni fyrir mér hvernig maður getur búið til persónur eins og þær í Friends með því að ,,taka quirky characteristic og gefa því nafn``, og sú aðferð virðist hafa verið brúkuð við gerð Dead Snow.

          Nú er ég þessi týpíski nútímakarlmaður sem hefur enga hugmynd um hvað það þýðir einu sinni að vera karlkyns lengur og hefur litla sem enga tilfinningu fyrir því hlutverki sem hann á að uppfylla, svo ég veit ekki alveg hvort að dálæti mitt á vel skrifuðum persónum og sögufléttum umfram stórar sprengingar er eðlilegt eða ekki. Ég veit hins vegar að ég fylgdist ekkert með söguþræðinum í Dead Snow og hefði verið skítsama þó að persónurnar í henni hefðu verið leiknar af kústsköftum sem var búið að hefta afklippur úr Séð og Heyrt á. Ástæðan er einföld og smeygir sér leið gegnum allar mínar kaldhæðnirvarnir og hittir beint í einhvern barnslegan ánægju- og spenningsblett innra með mér, sem að gerir allar spurningar um persónur, söguþráð, lífið og tilveruna óþarfar. Ástæðan er eitt orð: nasistauppvakningar.

          Eins og gamall maður sem kemur arkandi úr snjónum eitt kvöldið útskýrir fyrir læknanemunum, þá var fjörðurinn sem þau eru í ein af aðalbækistöðvum nasistanna í Noregi í seinni heimsstyrjöldinni. Líkt og handfylli af óþekkum börnum í annars fyrirmyndar bekk voru þetta þó ekki góðu og vingjarnlegu nasistarnir sem við eigum að venjast, heldur virkilega sjúkir fantar sem pyntuðu og drápu fólkið í kringum sig og stálu öllum eigum og fjármunum þeirra. Eftir nokkurra ára kúgun, rányrkju og vosbúð sættu bæjarbúarnir sig ekki lengur við þetta kjaftæði, risu upp gegn nasistunum og ráku þá úr bænum og upp í snævi þakin fjöllin í kring, þar sem þeir frusu í hel og fundust aldrei aftur. Eða, það er að segja, sú einstaka manneskja sem rakst á þá næstu 60 árin lifði aldrei til að segja frá því, af því að nasistarnir voru risnir upp frá dauðum og átu alla sem þeir hittu. Þegar að krakkarnir finna öskju með gullinu sem að nasistarnir stálu frá bæjarbúunum eru nasistazombíarnir ekki lengi að mæta á staðinn til að sækja það sem þeir stálu með réttmætum hætti í lifanda lífi, og læknanemarnir verða að gjöra svo vel og snúa bökum saman og berja frá sér til að lifa af.

          <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/05/16-zombie.jpg"> Þriðja ríkið hefur aldrei litið betur út.</p>

          Það er óhætt að segja að hver sá sem horfir á Dead Snow með því markmiði að sjá atburðarrás sem er eitthvað sérstaklega mikið vit í verður fyrir vonbrigðum. Dead Snow er ekki þannig mynd. Söguþráðurinn virkar eins og leiðinlegi krakkinn sem enginn vill leika sér með en mamma manns neyðir mann til að bjóða í afmæli af því það er ljótt að skilja útundan, hann er þarna bara til að læknanemarnir hafi afsökun til að hlaupa undan nasistauppvakningum. Sem ágætt dæmi skildi ég aldrei af hverju uppvakningunum var svona umhugað um að fá gullið sitt aftur. Var þetta bara svona prinsippmál, að skilja ekki hluti eftir hjá óæðri kynstofnum? Ég veit alla vega ekki hvað hópur af 60 ára gömlum rotnandi líkum hefur að gera við reiðufé. Ekki þurfa þeir að borða eða drekka, ekki vantar þá að komast í H&M, og ekki geta þeir ferðast neitt án þess að verða fyrir talsverðu aðkasti hinna lifandi fyrir að vera nasistar, dauðir, og fyrir að éta fólk, svo að fátt eitt sé nefnt.

          Því er eins gott að Dead Snow spilaði vel með hefðbundnar hryllingsmyndavenjur, það er vondan húmor, vísanir í aðrar hryllingsmyndir og skapandi blóðsúthellingar. Ég hafði sérstaklega gaman af hvernig kvikmyndanördinn var notaður til að benda á ákveðin atriði við hryllingsmyndir, eins og að hver einasta mynd í dag þarf að byrja á að útskýra af hverju farsímar allra í hópnum eru gagnslausir, eða að hann var eini maðurinn á staðnum sem að vissi hvað uppvakningar voru. Nú hefur nútímauppvakningurinn verið til í sirka 40 ár, frá því að Romero gerði fyrstu myndina sína, og það er gaman að hugsa um vitundarmuninn á þeim og vampýrum. Sem dæmi þá vita allir í vampýrumyndum hvað vampýrur eru og hafa einhverja hugmynd um hvernig á að drepa eða umgangast þær, enda eru meira en hundrað ár síðan að fyrsta eiginlega vampýrusagan kom út og fólk hefur því haft góðan tíma til að venjast þeim. Aftur á móti hef ég aldrei séð zombímynd þar sem að fólkið í myndinni veit hvað uppvakningar eru, svo að það þarf alltaf að byrja á að rúlla í gegnum undirstöðuatriðin við þá, það er að þeir séu dauðir, að það þurfi að eyðileggja heilann í þeim og að þeir bíti frá sér.

          Þetta er til marks um að á meðan að mamma þín og pabbi vita örugglega hvað vampýrur eru, þá eru uppvakningar á grárra svæði og því þarf að útskýra hvað þeir eru. Reyndar vekur þetta upp spurninguna um hvort að það væri hægt að búa til trúverðuga mynd þar sem að þessari almennu vitneskju væri snúið við, það er vampýrumynd þar sem enginn veit hvað þær eru eða zombímynd þar sem allir eru með á nótunum um gangandi pláguna, eða hvort að stökkið þar á milli sé það stórt að útkoman verði ekki annað en kjánaleg. Það getur verið að við sjáum tilraun til seinni myndarinnar á næstu árum, þegar og ef að kvikmyndaútgáfan af World War Z kemur út, en þar sem að hún gerist áratug eftir faraldurinn og segir frá liðnum atburðum má rífast um hvort að hún svari spurningunni raunverulega.

          <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/05/16-snowslead.jpg"> Frábær notkun á snjósleða.</p>

          Hvað sem því líður þá býður Dead Snow upp á prýðilegan kokteil. Við höfum nasistazombíana okkar og kvikmyndanördinn, sem mig grunar reyndar að hafi verið skrifaður inn í myndina til þess eins að láta gagnrýnendum líka betur við hana, af því að þó hann deyji fljótt á mjög blóðugan hátt þá er hann eini strákurinn sem fær að ríða, og það meira að segja út á ítarlega bíómyndaþekkingu sína. Þar að auki lærir maður hvernig á að vita í hvaða átt maður á að grafa til að sleppa úr snjóflóði við að horfa á Dead Snow (hræktu og grafðu í öfuga átt við þá sem hrákinn lekur í), Norðmennirnir í henni búa yfir hressilega heilbrigðri skynsemi og hlaupa ekki strax út í nóttina einir síns liðs, og það er ekki annað hægt en að standa upp og klappa fyrir einstaka uppvakningaútrýmingu sem að hefði listrænt gildi ein og sér. Ég mun aldrei horfa á snjósleða sömu augum aftur. Mér finnst því mjög skrýtið að mér hafi ekki fundist Dead Snow sérstaklega skemmtileg.

          Ókei, þetta var kannski full hart mat, af því að Dead Snow er alls ekki leiðinleg. Hún átti hins vegar erfitt með að halda athygli minni í lengri tíma og þrátt fyrir ýmsa kosti er hún auðgleymanleg. Að mynd um uppvakninga sem eru nasistar sé auðgleymanleg er einfaldlega deprimerandi. Ég er ekki viss hvað við Dead Snow gengur ekki upp, en hún er ekki jöfn summunni af pörtum sínum. Þetta er undarlegt, af því að ég man bara eftir einu atriði við hana sem pirraði mig eitthvað, og það var hvort að nasistarnir væru alvöru uppvakningar eða ekki. Þeir eru vissulega dauðir og við lítum framhjá því að þeir hlaupa útum allt eins og trítilóð börn, en þeir eru undir forystu höfuðsmannsuppvakningins og fylgja skipunum hans, bregðast við þegar að þeir eru barðir, og það kemur aldrei almennilega í ljós hvort að það þurfi að eyðileggja heilann í þeim eða hvort að bitin þeirra geri aðra að uppvakningum. Þetta er algert smáatriði og alls ekki eitthvað sem að eyðileggur mynd fyrir mér, en hefur engu að síður setið eftir alla vikuna.

          Á endanum hlýtur eini dómurinn sem að skiptir máli yfir bíómynd vera hvort að maður myndi mæla með að aðrir sæu hana eða ekki. Dead Snow kemst vel frá honum, því að fólk sem hefur gaman af hryllingsmyndum yfir höfuð, eða vill bara sjá Norðmenn slitna í sundur og étna, gæti gert margt verra en að horfa á Dead Snow. Bara ekki búast við að hún breyti lífi þínu, eða jafnvel að þú munir eftir henni þegar að hún klárast. Eins ótrúlegt og það er, þá sameinar Dead Snow uppvakninga, nasista, kvikmyndavísanir og ógeðslegustu noktun á fyrstu persónu sjónarhorni sem ég hef séð, og tekst þrátt fyrir það að vera gott sem auðgleymanleg. Fyrir viku hefði mér fundist þetta óþenkjandi tilhugsun, en núna er hún raunveruleg, og áþreifanleg, en fyrst og fremst eins og hugmyndin um sæta stelpu sem er ekki í stuttu pilsi á heitum og sólríkum sumardegi: sorgleg.

          <p align="center"><strong>

          Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>

          Börnin sýna að þeim er ekki treystandi í <a href="http://en.wikipedia.org/wiki/The_Children_(2008_film)">_The Children_</a>.

          <p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=QOrcIyvW5Rk&hl=fr&fs=1]</p>

            <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/15-poster.jpg"></p>

            Þegar ég sá tágranna sextuga konu í gær í svörtu mínípilsi og snaggarlegum topp með laglega greitt hár og eyrnalokka sem glampaði á í sólinni ákvað ég að ég yrði aldrei svona þegar ég verð gamall. Ónei, mér er svo sem sama hvað aðrir gera á meðan það færir þeim ánægju eða fróun, sama þótt það þýði að klæða sig og hegða sér eins og að maður sé sautján fram á gamalsaldur, en ég sjálfur verð fúll gamall karl í ljótu vesti og buxum sem hann man ekki alveg hvar hann fékk. Helst ætla ég líka að koma mér upp minnisleysi og ringlun eða jafnvel vægum geðsjúkdómi, sem ég mun vita af en reyna af besta megni að fela fyrir öllum í kringum mig. Ég mun aldrei viðurkenna að Jóna vinkona á ekki þessa rauðu tösku á borðinu, ég mun vita fullvel að hún gleymdi henni hérna í þessum djöfuls kjaftaklúbb ykkar kerlingin þín, og mér mun einnig vera skítsama um að þú þekkir enga Jónu. Þú munt bara víst þekkja hana.

            Fyrir utan minnisleysið held ég að þetta sé aðallega spurning um að halda upp á gamla klassíkera. Ég mun segja krökkum og unglingum að hunskast af lóðinni minni. Reynar er raunverulegur möguleiki á því að ég muni búa í borg þar sem að lóðir og garðar í einkaeign eru ekki á hverju strái, en ég er búinn að sjá fyrir því. Þegar ég finn mér varanlegan bústað ætla ég að byrja að halda utanum hversu mikið ég borga í skatta annars vegar og hversu mikið lóðir almenningsgarðanna í bænum eru virði hins vegar. Á hverju ári mun ég svo reikna út hversu marga fermetra ég á í almenningsgörðunum, merkja mér þá á hátt sem aðeins ég tek eftir, og segja svo krökkum og unglingum sem slysast á blettinn að drulla sér burt. Ptu. Þetta verður talsverð vinna, en mér finnst réttlætanlegt að leggja hana á mig. Það verður einhver að faire chier börn og unglinga, sem eru og verða leiðinlegar manneskjur.

            Nákvæmlega hvað mér finnst að börnum verður að bíða þar til eftir tvær vikur, þegar að við gæðum okkur á The Children, en ég er sjálfur hálf sjokkeraður á viðhorfi mínu til unglinga. Eftir sirka mánuð skríð ég á síðasta hrópmerkt afmælið þannig að það eru ekki mörg ár síðan að ég var sjálfur unglingur. Til tilbreytingar við mjög vinsæla sjálfsblekkingu ætla ég ekki að halda því fram að mín kynslóð hafi verið betri en aðrar á þessu skeiði, því almennt vorum við, og sér í lagi ég, fokking óþolandi hálfvitar. Það fylgir unglingum bara. Þeir eru orðnir nógu gamlir til að vilja hafa skoðanir, en ekki nógu gamlir til að vita nokkurn skapaðan hlut sem þarf til að mynda téðar skoðanir, þeir klæða sig undarlega, þeir tala tungum (Tengt: Veit einhver af hverju ungar stelpur eru núna kallaðar ,,skinkur``? Eini möguleikinn sem mér dettur í hug er full klúr og úthugsaður.) og þeir hlusta á vonda músík, sem þeir eru ófeimnir við að blasta á almannafæri úr símunum sínum. Ég skil þá ekki og ég er hræddur við þá. Sem er ágætis forgjöf fyrir Eden Lake.

            <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/15-begood.jpg"> Ég skal vera þægur.</p>

            Aðalpersónurnar í Eden Lake eru annars vegar Kelly Reilly - ímynd hins fullkomna kvenmanns, verðandi eiginkona mín í réttlátum heimi og Wendy úr L’Auberge Espagnole - og Michael Fassbender, sem hefur án efa narrað hana Kelly til samlífs við sig með bellibrögðum af því að Kelly sem ég þekki myndi aldrei láta kenna sig við slíkt dusilmenni, og hann var víst í 300 og Band of Brothers þó ég muni ekki eftir honum þaðan. Þau eru á leiðinni út úr bænum til að eyða rómantískri helgi saman nálægt lítt þekktu stöðuvatni, sem er reyndar gömul náma sem búið er að veita vatni í (Kelly, ég myndi aldrei fara með þig í gamla námu. Nema þú fílaðir það. Ef þú vildir það fengirðu alla þá skoðunartúra í zinkverksmiðjuna sem þig dreymdi um. Ég þekki gaur og fæ frítt inn.)

            Stöðuvatnið reynist prýðilega fallegt þegar þau koma þangað loksins eftir næturstopp í huggulegum breskum hvíthyskisbæ, þar sem fullorðna fólkið er feitt, drukkið og með sorakjaft, og börnin eru hávær, óþæg og lamin af þeim fullorðnu. Kelly og Michael henda upp tjaldi og leika sér í vatninu, en eru þó ekki lengi í paradís því að stuttu seinna plantar hópur af unglingum sér á ströndina rétt hjá þeim, spila vonda músík hátt og hafa engan hemil á hundinum sínum á meðan þau drekka og reykja og tala í farsímana sína. Þegar að Michael biður krakkana um að lækka í græjunum svara þau með stælum og skætingi og þau skötuhjúin láta lætin yfir sig ganga, vegna þess að þrátt fyrir að það sé nóg pláss við vatnið ætla þau ekki að færa sig út af einhverjum vandræðaunglingum. Árekstrarnir á milli þeirra stigmagnast svo með hverri ítrun þar til að þeir enda með því að einhver meiðir sig, sem losar um allar hömlur og leiðir út í ofsafullt ofbeldi.

            Ég reyni yfirleitt að segja ekki of mikið um söguþráð myndanna nema að þær séu algert rusl, en í þessu tilfelli verður einfaldlega ekki hjá því komist að upplýsa allan söguþráðinn um leið og maður byrjar að tala um hann. Þetta sem stendur að ofan er það eina sem gerist í Eden Lake, og söguþráðinn má meira að segja taka enn betur saman: Ungt par hittir unglinga úti í sveit og þau gera hræðilega hluti við hvort annað. Eden Lake er í svipuðum stíl og Hostel, <a href="http://hrollur.wordpress.com/2009/02/12/4-frontiers/">_Frontier(s)_</a> og aðrar pyntingaklámsmyndir sem eru kvikmyndaútgáfan af hundaati, þar sem söguþráðurinn er ekki mikið annað en afsökun til þess að brýna hnífa og skvetta gerviblóði á allt og alla og horfa á síóþægilegri og meira klígjuvaldandi ofbeldisatriði.

            <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/15-youths.jpg"> Æskan, skjöldur vor og sómi.</p>

            Þar sem söguþráðurinn og persónurnar í Eden Lake vekja álíka mikla athygli og heimilislausi karlinn fyrir neðan gluggann minn sem betlar pening með því að spila sama fiðlustefið aftur og aftur þá verðum við að finna eitthvað annað til að tala um. Sem betur fer býður Eden Lake upp á einhver umræðuefni og vangaveltur, þar af ekki síst spurninguna um af hverju hún var eiginlega búin til? Í sjálfu sér hef ég ekkert út á tilvist Eden Lake að setja, en ég á voða erfitt með að sjá fyrir mér ástæðurnar sem liggja að baki því að dúndra henni út í heiminn. Nú er Eden Lake mjög blóðug og ógeðsleg mynd, og mín tilfinning er sú að af öllum kvikmyndaaðdáendum heimsins séu ekkert svo margir sem sækja viljandi í slík verk, þannig að Eden Lake var varla gerð fyrir frægð, peninga og kellingar eins og flest annað sem karlmenn taka sér fyrir hendur (leikstjóri og höfundur Eden Lake er karlmaður).

            Eina önnur ástæðan sem mér dettur í hug fyrir að gera svona mynd er til að sanna fyrir sjálfum sér að maður geti það og vekja athygli á sér, sem gæti vel verið tilfellið af því að Eden Lake er fyrsta myndin í leikstjórn James Watkins og önnur myndin sem hann skrifar handritið að. Ef að það er rétt þá óska ég James Watkins hér með alls hins besta í því sem hann tekur sér fyrir hendur í framtíðinni (ef að internetinu er trúandi verður það framhald af <a href="http://en.wikipedia.org/wiki/The_descent">_The Descent_</a>), af því að andrúmsloftið í Eden Lake er lygilega vel heppnað. Mikið af myndinni snýst um kattar og músar leik þeirra Kelly og Michael við unglingana í skóginum umhverfis stöðuvatnið. Í röngum höndum hefði verið hundleiðinlegt að horfa á þennan eltingarleik, en Watkins hefur góða tilfinningu fyrir myndavélinni og nær á köflum að pumpa spennuna upp í óþægilegar hæðir. Að minnsta kosti stóð ég mig að því að halda full fast í stólinn minn í þegar að eltingarleikurinn var sem æsilegastur.

            Þó að mikið af myndinni fari í þennan feluleik og að spennan í Eden Lake komi aðallega úr honum er alls ekki svo að hér sé um einhvern flogaveikisvald à la Michael Bay að ræða. Nei, þetta er allskostar rólegri eltingarleikur sem gengur út á taugatrekkingar og stress. Svipaða sögu er að segja um hryllinginn og blóðsúthellingarnar, sem eru bæði merkilega lítið sýndar þegar ég hugsa um það eftirá og yfirvegaðar miðað við magnið af drullu og blóði sem er þeytt útum allt. Besta leiðin sem mér dettur í hug til að útskýra þetta er að benda á að Eden Lake er bresk mynd. Á sama hátt og að góðir breskir gamanþættir eru, frekar en bandarískir kollegar sínir, tilbúnir að leyfa áhorfandanum að fylla inn í eyðurnar og fatta sjálfur af hverju síðasti brandari var fyndinn, þá er Eden Lake ófeimin við að leyfa okkur að ákveða hvað í henni er hræðilegt og hvað ekki. Voðalegustu og blóðugustu atburðirnir í henni, og af þeim er nóg, gerast úr augsýn og við sjáum annað hvort aðeins afleiðingar þeirra eða heyrum í fórnarlömbum þeirra á meðan þeim stendur. Eli Roth eða Frakkarnir sem gerðu Frontier(s) hefðu haldið andlitinu okkar að þeim og neytt okkur til að horfa, en Eden Lake gerir akkúrat það öfuga og þvingar okkur í staðinn til að fylla sjálf upp í eyðurnar.

            <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/15-onesecond.jpg"> Þetta skot hefði tekið korter ef það hefði verið í Hostel, í staðinn fyrir eina sekúndu.</p>

            Annað eftirtektarvert verk Eden Lake er að þrátt fyrir að unglingarnir séu án efa vondu karlar myndarinnar leyfir hún leyfir þeim að vera merkilega mannlegum. Aðeins einn krakkana, höfuðpaurinn Jack O’Connell sem einhverjir þekkja kannski úr menntaskólasápunni Skins, virðist vera haldinn kvalarlosta og samviskuleysi, og það er meira að segja ýjað að því að það sé komið frá ofbeldisfullum pabba hans frekar en að hann hafi fæðst sem sonur næturinnar undir sjöunda tungli hins sjöunda mánaðar. Þar að auki er hann ekki tilfinningalaust skrýmsli því honum er augljóslega umhugað um hundinn sinn, sem er aðalástæðan fyrir því að atburðarrásin fer jafn úr böndunum og raun ber vitni, og hann er bæði gáfaður og meðvitaður um afleiðingar gjörða sinna, sem sést best á að hann neyðir vini sína til að særa Michael og tekur þá upp á vídjó á meðan svo að enginn þeirra geti farið til lögreglunnar ef þeir fá samviskubit seinna meir. Fyrir sitt leyti virðast hinir unglingarnir vera krakkar sem hafa í gegnum hópþrýsting villst inn í aðstæður sem þeir hafa enga stjórn á lengur og geta ekki losnað úr þó þá langi til þess.

            Ofaná þetta er eitt horn á Eden Lake sem stingur í augun en ég treysti mér ekki til að tala um, einfaldlega af því að ég þekki ekki aðstæðurnar þar í kring og væri þá að tala út úr rassgatinu á mér, en það er hvað má lesa úr henni um stéttarskiptingu og viðhorf mismunandi samfélagshópa í Bretlandi til hvors annars. Bæði unglingarnir og foreldrar þeirra koma utan af landi og eru verkamannafólk, á meðan að Michael og Kelly búa í einhverri borginni og virðast teljast til miðstéttarinnar. Árekstarnir á milli parsins og krakkana virðast kvikna að einhverju leyti af því að krakkarnir halda að þau séu uppar sem eru að skoða stöðuvatnið, en það á að breyta því í lokað sumarbústaðasamfélag fyrir ríka fólkið. Þetta er rangt hjá krökkunum, en hjálpar alls ekki til við samskipti hópanna tveggja. Eins og ég segi treysti ég mér ekki til að lesa mikið úr þessu, en mér þætti gaman að ræða þetta einhvern daginn yfir bjór við hryllingsmyndaáhugamann sem þekkir staðhætti í Bretlandi.

            Strax eftir að ég kláraði Eden Lake vísaði ég henni frá sem einfaldri pyntingaklámsmynd og fannst ekki mikið til hennar koma. Út af þessum umfjöllunum neyddist ég þó til að koma aftur til hennar og hugsa betur um hana og þá áttaði ég mig á að ég hafði verið full fljótur á mér. Ég fattaði að á milli allra blóðsúthellingana og gaddavírsfjötranna er þétt og klár mynd, sem birtist eins og falin þrívíddarmynd í málverki ef mann langar að finna hana. Eden Lake er sjaldgæf hryllingsmynd. Ef þig langar að sjá venjulegt fólk lenda í hræðilegum aðstæðum sem það getur lítið gert við, þá gerir hún það prýðis vel. Ef þig langar að sjá ógeðslega hluti sem að gefa þér eitthvað til að hugsa um eftirá, þá gerir hún það líka. Ef það að sama myndin geti gert bæði er ekki ávísun á góða hryllingsmynd, þá veit ég ekki hvað er það.

            <p align="center"><strong>

            Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>

            Í <a href="http://en.wikipedia.org/wiki/Dead_Snow">_Dead Snow_</a> herja nasistauppvakningar á hóp af Norðmönnum í útilegu. Gæti þetta orðið betra?

            <p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=3-KQh87_V2Q&hl=fr&fs=1]</p>

              Seinkun. Aftur. Vei

              Sjitt, þetta eru ekki mínar tvær vikur. Sökum óreglu og almenns dekadens (ég var í Lyon í gær og fyrradag) kemur Eden Lake inn á morgun.

              Mér til afsökunar er ég búinn að skrifa umfjöllunina, en ég á eftir að finna myndir og ég hef ekki tíma til að endurskrifa hana í kvöld. Hún kemur í staðinn inn strax í fyrramálið, sennilega áður en þið vaknið vegna tímamismunarins.

                <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/14-poster1.jpg"></p>

                Fyrir rúmri viku var slæmt ástand á mér. Ég hafði millilent á Stansted flugvellinum fyrir utan London á leiðinni til Íslands og þurfti að bíða í sjö klukkutíma eftir fluginu mínu. Þó að ég hefði getað hringt í einhverja vini mína og kíkt á þá í London, þá fannst mér ekki taka því að eyða tveim tímum í lest til og frá borginni til að hitta þá, en mig langaði samt ekki að hanga á flugvellinum allan daginn svo ég tók lestina til næsta bæjar, Harlow Town. Ekki fara til Harlow Town. Skítaholuleiki bæjarins storkar ímyndunaraflinu og besti hluturinn við staðinn er að það er hægt að fara þaðan. Engu að síður eyddi ég sirka fjórum tímum á slæmum túristapöbb þar, sem var svo sem allt í lagi þangað til að batteríið í tölvunni minni kláraðist akkúrat um þær mundir sem ég var orðinn nógu kenndur til að nenna ekki að lesa. Kvenkostirnir á barnum voru annað hvort gamlir eða ómyndarlegir, nema að bæði væri, svo ég afskrifaði hugmyndina um að fara að daðra við gærur mér til dægrardvalar. Í staðinn pantaði ég mér annan bjór og fór að hugsa um skammtafræði, þó að ég vissi fullvel að það leiði aldrei til annars en almennrar óhamingju og siðleysis.

                Nú veit ég ekki hversu mikið þið hafið spáð í skammtafræði, en einn af eiginleikum hennar er að í henni hafa frumeindirnar sem mynda heiminn okkar - rafeindir, róteindir og nifteindir - enga ótvírætt ákvarðaða staðsetningu. Ef að bíllinn þinn hagaði sér svipað og róteind, þá myndirðu finna hann í stæði sirkabout þar sem þú lagðir honum síðast en ekki á sama stað. Þetta er óneitanlega spes hegðun og hún vekur upp undarlegar spurningar og hugmyndir. Ein þeirra er margra heima túlkunin á skammtafræði, sem segir í grófum dráttum að í hvert einasta skipti þegar að frumeind getur beygt til vinstri eða hægri, þá skipti alheimurinn sér í tvö eintök. Í öðru eintaki fer frumeindin til vinstri, og í hinu fer hún til hægri. Þetta þýðir að það eru óteljanlega margir alheimar til og að sumir þeirra eru næstum því eins og okkar, það munar kannski stefnunni á nokkrum frumeindum. Þar sem við erum sett saman úr þessum frumeindum, þá þýðir þetta líka að til eru fleiri alheimar en þú getur hugsað þér með öðrum útgáfum af þér, og að sama hversu skrýtnar aðstæður sem þú getur ímyndað þér þig í, þá er sennilega til alheimur einhversstaðar þar sem þú hefur lent í þeim.

                Þessar hugleiðingar vöktu með mér mikla depurð og óhamingju, af því að þær þýða að á meðan ég er sæmilega ábyrgur og siðprúður drengur - alla vega á meðan fólk sér til - þá er til útgáfa af sjálfum mér sem stóð upp úr flugvélasætinu sínu áðan, klæddi sig úr buxunum, setti nærbuxurnar á hausinn á sér, og hristi sig þokkalega og skók höndum til og frá á meðan hann sveiflaði typpinu sínu í hringi eins og þyrluspaða og hrópaði ,,O-ho-ho-ho!`` á franskan máta. Það var ekki laust við að ég yrði svolítið deprimeraður við þessa tilhugsun, af því að allar aðrar útgáfur af mér voru að skemmta sér, en ég sat á skítabar í Harlow Town umkringdur sjötta bjórs fólki. Stuttu seinna tók ég þó gleði mína á ný, vegna þess að sömu pælingar leiða til þess að það er til fullt af útgáfum af mér sem hafa aldrei séð The Host, og þeir eru fátækir og óöfundsverðir menn fyrir vikið.

                <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/14-family.jpg"> Þrír fimmtu Park fjölskyldunnar á góðri stund.</p>

                The Host hefst á atriði sem er svo löðrandi í tilgangslausri mannvonsku að það hálfa væri nóg, og ég held að sjálfir Fóstbræður hafi ekki einu sinni náð í þessar hæðir í gervisýnishornunum sínum í gamla daga. Í atriðinu gerist svo sem ekkert mikið, aðstoðarmanni á rannsóknarstofu er sagt að hella flöskum af formaldehýði í vaskinn, sem hann gerir eftir að yfirmaðurinn hans talar niður til hans í fimm mínútur vegna þess að hann benti á að þetta eru eiturefni sem þeir hafa betri leiðir til að losa sig við. Næstu nokkur skot gerast á nokkurra ára tímabili og sýna að eiturefnin hafa haft einhver áhrif, því tveir veiðimenn finna litla undarlega veru sem sleppur svo frá þeim, og nokkrir menn sem standa á bryggju taka eftir stórum skugga í ánni fyrir neðan þá.

                Þegar að þessari kynningu er lokið hittum við persónur sögunnar, sem eru Park fjölskyldan. Aðalpersónan er hinn vitgranni Gang-du sem vinnur í söluturni sem pabbi hans rekur. Hann á dóttur, Hyun-seo, sem virðist vera að klára grunnskóla og tvö systkini, sem eru annars vegar bogmaður og hins vegar fyrrverandi háskólanemi og aktivisti og núverandi atvinnulaus alkahólisti. The Host sóar þó engum tíma í að skoða samböndin á milli þeirra, heldur vindur sér beint í fyrstu af mörgum skrýmslaárásum. Kvikyndið sem var vísað til í byrjuninni er nú á stærð við vörubíl og drífur sig upp úr ánni sem söluturn þeirra fegða stendur við og tekur að rífa sólsleikjandi borgarana í sig. Í ringulreiðinni sem myndast reynir Gang-du að bjarga lífi sínu, á meðan að pabbi hans og dóttir sitja í söluturninum og horfa á sjónvarpið og taka ekki eftir neinu óeðlilegu, en eftir að tilraun hans og bandarísks hermanns við að reyna að hrekja skrýmslið í burtu ber vafasaman árangur grípur skrýmslið dóttur Gang-du, hoppar aftur í ánna og syndir í burtu.

                Öllum eftirlifendum árásarinnar er trillað í neyðarbúðir á vegum hersins án neinnar ástæðu þar sem fólk fær ekki meira en svefnpláss og tækifæri til að minnast hinna látnu. Eftir einhvern tíma mæta menn í gulum eiturefnavarnargöllum í búðirnar og vilja að allir sem komust í tæri við skrýmslið gefi sig fram, en neita að segja af hverju. Þar sem Gang-du er einn þeirra er hann tekinn höndum og einangraður frá hinum af því að yfirvöldin halda að skrýmslið hafi borið mér sér illskeyttan vírus. Lífið virðist ekki bjóða upp á mikið fyrir aumingja Gang-du, sem manni finnst á köflum ekki skilja fullkomlega hvað hefur komið fyrir sig, en það breytist þegar að hann vaknar um miðja nótt við símhringingu frá dóttur sinni. Hún er á lífi en föst í ræsi sem skrýmslið notar sem hreiður, og eftir að enginn frá hernum vill hlusta á þau taka Gang-du og fjölskyldan hans málin í sínar eigin hendur, flýja úr búðunum og hefja leitina að Hyun-seo.

                <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/14-monster.jpg"> Skrýmslið á einum af sínum þokkafyllri stundum.</p>

                Ég á erfitt með að ákveða hvað mér finnst best við The Host svo ég held að ég leyfi mínum innri þrettán ára unglingi að ráða valinu: djöfull var ég ánægður með risaskrýmslið. The Host á hrós skilið fyrir að halda sig innan ramma skrýmslamyndanna, en beygja engu að síður allar venjur og reglur innan þeirra. Kvikyndið sem herjar á Seoul er ekki á stærð við skýjakljúf, eins og við eigum að venjast frá Godzillu myndunum og Cloverfield, heldur er það svipað stórt og vörubíll. Fyrir risaskrýmsli er það í minna lagi, en gerir að verkum að barátta Park fjölskyldunnar við skrýmslið verður meira trúanleg, maður heldur alla vega að þau hafi einhvern séns á móti því. Þar að auki er þetta í fyrsta skipti sem að ég sé skrýmsli sem að stökkbreyttist inní heiminn í eiturefnahaugi og lítur út og hagar sér í samræmi við það. Skrýmslið er forljótt og lítur út eins og því hafi verið hent saman úr sjö öðrum dýrum. Það virðist fíla sig best þegar það sveiflar sér á milli staða á skottinu, sem er rosalega óhentugur ferðamáti, og á þurru landi er það klunnalegra en trúður á vondu sýrutrippi. Þetta er eitthvað sem ég kaupi alveg; ef að ég hefði skriðið upp úr formaldehýðspolli væru þokki og fríðleiki varla höfuðeinkenni mín.

                Eins og skrýmslið eru hinar persónur myndarinnar mjög vel heppnaðar. Þrátt fyrir að það séu fimm meðlimir í Park fjölskyldunni og að þau séu öll mjög ólík, þá nær The Host bæði að sýna hvert og eitt þeirra sem sjálfstæðan einstakling sem hefur sínar eigin skoðanir og að gera samböndin á milli þeirra áþreifanleg. Í stuttu máli virka þau öll eins og alvöru fólk en ekki skrýmslafóður á tveim fótum. Ég veit ekki hvort að síbylgja vondra mynda á síðustu mánuðum hefur lækkað kröfur mínar til bíómynda svona svakalega, en mér fannst æðislegt að sjá persónunum gerð svona góð skil. Mér finnst æ sjaldgæfara að sjá vel tálgaða karaktera í venjulegum myndum, hvað þá í mynd um risaskrýmsli sem herjar á Asíubúa, og að persónurnar hegðuðu sér þar að auki eins og venjulegt fólk en ekki eins og áðurnefnt skrýmslafóður var rúsínan í pylsuendanum.

                Fyrir mynd um ógnvætt sem býr í vatninu hefur The Host líka undarlega vel mótaðar skoðanir, sem hún er ekki hrædd við að koma á framfæri á milli skrýmslaárása. Fyrsta og augljósasta skotmark The Host er bandaríski herinn, sem hefur verið viðloðandi Suður-Kóreu síðustu fimmtíu ár. Allt frá upphafsatriðinu, þegar að bandarískur hermaður skipar undirling sínum að hella formaldehýðinu niður, yfir í fyrstu skrýmslaárásina þegar að ungur hermaður hleypur frá kærustunni sinni í áttina að skrýmslinu með þeim orðum að hann verði að hjálpa til, og að sóttkví og lokalausn hersins er bandaríski herinn aldrei sýndur öðruvísi en þannig að hann bregðist umsvifalaust við án umhugsunar eða tillits til almennra borgara. Hann er ekki beint sýndur sem algerlega illt fyrirbæri, eins og sést með hermanninum í byrjun sem vill bara hjálpa til þó að það sé aldrei á hreinu hvað hann geti eiginlega gert, en gegnum harkalegar aðgerðir og lygavef hersins sér maður að honum er meira umhugað um að vernda sjálfan sig en aðra. Fyrir utan bandaríska herinn fá kóreskir mótmælendur og hið opinbera líka sinn skerf af skotum. Hinir fyrri virka sem velviljað fólk sem hefur samt enga hugmynd um hvað það er að gera og þvælist meira fyrir en það hjálpar til, og allir sem koma nálægt hinu opinbera eru regluföst möppudýr sem eru í besta falli gagnslaus og í versta falli skítsama um almenna borgara.

                <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/14-protest.jpg"> Eins og Akira kenndi okkur enda mótmæli í Austurlöndum aldrei vel.</p>

                Öll þessi atriði - vel úthugsað skrýmsli, persónur og boðskapur - eru ekki eitthvað sem maður býst við af hryllingsmynd, en þau eru dæmi um hvernig The Host er algerlega óttalaus við að taka áhættu og fara ótroðnar slóðir. Flestar góðar skrýmslamyndir, eins og Alien eða Cloverfield, taka sinn tíma í að sýna skrýmslið sitt og láta því aðeins bregða óljóst fyrir í skuggum þar til í lokin. Af fyrstu tuttugu mínútum The Host fer helmingurinn í árás þar sem að skrýmslið sést vel og greinilega, og við sjáum það oft og reglulega í gegnum restina af myndinni. Með þessu kastar The Host venjulegu brellunni um að láta fólk vera hrætt við hið óþekkta fyrir borð, en í staðinn fær skrýmslið að njóta sín miklu betur en ella og verður eins og alvöru persóna en ekki bara söguþráðshvati með vígtennur.

                Áhættufíkn The Host takmarkast ekki við skrýmslasýningarnar, heldur smitar hún sér leið inn í sjálfa uppbyggingu myndarinnar. The Host er hryllingsmynd. Slíkar myndir eru ólíkar sínar á milli og það rúmast ágæt breidd inní þeim flokki; það eru til dæmis til hryllingsmyndir sem keyra aðallega á spennu eða andrúmslofti, aðrar nota hryllinginn til að undirstrika dramatík, og enn aðrar nota djöflana og gerviblóðið til að láta okkur hlægja. The Host gerir allt þrennt. Eina stundina heldur maður í sætið sitt af spenningi, þá næstu fylgist maður af miklum áhuga með samskiptum persónanna, og þá þriðju er ekki annað hægt en að hlægja yfir kjánalegum slappstikkatriðum. Að láta sér detta í hug að troða öllu þessu þrennu í eina mynd er hugmynd sem aðeins fólk sem á heima í spennutreyjum fær, og hún verður bara geðbilaðri fyrir þær sakir að hún gengur fullkomlega upp. Með þessum skiptingum hefði The Host auðveldlega getað orðið jafn slæm og <a href="http://hrollur.wordpress.com/2009/03/19/9-repo-the-genetic-opera/">_Repo! The Genetic Opera_</a>, ef ekki verri, en hún lætur þær virka gegnum einhversskonar svartagaldurskukl sem ég mun aldrei átta mig á.

                The Host er metnaðarfyllsta mynd sem ég hef séð í langan tíma og hún er miklu betri en hryllingsmynd um skrýmsli í vatninu hefur nokkurn rétt á að vera. Að detta í hug að troða svona skiptingum, persónum, sögufléttum og boðskap inn í eina mynd er álíka bilað og að ráðast inn í Rússland með þrjátíu fyllibyttum vopnuðum sleifum og títuprjónum, og að það gangi allt upp kemur jafn mikið á óvart og að sú innrás takist. Undarlegast af öllu er samt að með þessum viðbætum er The Host ennþá fantagóð skrýmslamynd. Persónurnar í henni eru betur gerðar en í flestum venjulegum kvikmyndum, hún hefur boðskap sem hún er ekki hrædd við að deila með áhorfendum, og í hvert einasta skipti sem að maður fattar hvert söguþráðurinn stefnir tekur hann u-beygju sem er bæði ófyrirsjáanleg fyrir fram og eðlileg eftir á, en The Host missir aldrei sjónar af því að hún er mynd um vatnaskrýmsli. Að The Host sé yfir höfuð til er jafn ólíklegt og að tvö snjókorn séu nákvæmlega eins, og hún er ein af bestu myndum sem ég hef séð í langan tíma.

                <p align="center"><strong>

                Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>

                Unglingar vaða uppi með gemsana sína og tyggjóið sitt í <a href="http://en.wikipedia.org/wiki/Eden_Lake">_Eden Lake_</a>.

                <p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=Z1QaFtd55MI&hl=fr&fs=1]</p>

                  Seinkun

                  The Host seinkar og kemur sennilega inn á laugardaginn.

                  Alla síðustu viku er ég búinn að vera á stærðfræðiráðstefnum á Íslandi, plús að reyna að troða inn að hitta eins marga ættingja og vini og ég gat áður en ég færi heim í fyrramálið. Að segja að ég hafi ekki haft tíma til að skrifa er epískur úrdráttur.

                    <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/13-poster.jpg"></p>

                    Ég varð fyrir vonbrigðum í gærkvöldi. Engum litlum vonbrigðum, heldur upplifði ég eitt af þessum augnablikum sem að hrista trú manns á mannkynið í heild sinni og gera það að verkum að maður ákveður að eignast aldrei börn, af því að það væri hvort eð er tilgangslaust í þessum grimma heimi og svo framvegis. Ég var með vinkonu minni og sirka þrjátíu öðrum krökkum í laut á bakvið gamalt virki sem hengur utan í fjalli yfir bænum mínum. Nóttin var skollin á, en það var ennþá hlýtt úti og ofan úr dalnum drógu götuljósin útlínur bæjarins í myrkrinu. Við sátum í kringum varðeld, sem við höfðum grillað pylsur með papriku á fyrir sirka tveim tímum, og vorum búin að eyða kvöldinu í að drekka bjór og spjalla saman og spila á gítar.

                    Ein af betri ákvörðununum sem ég hef tekið er að taka gítarinn minn með mér hingað út. Þegar ég fór var ég nýbúinn að kaupa hann og á meðan að ég hafði umgengist gítara áður og kunni helstu gripin og gat hamrað út einu eða tveim lögum, þá hefði enginn sem væri ekki að reyna við mig sagt að ég spilaði vel. Þannig að það var ekki sjálfgefið að ég myndi drösla honum gegnum millilandaflug, lestir og almenningssamgöngur til þess eins að geta spilað vondar útgáfur af Pixies lögum. Eftir á er ég ótrúlega feginn að ég tók gítarinn með. Þegar að maður kemur inn til sín eftir daginn á þriðja mánuði í landi þar sem maður talar tungumálið ekki nógu vel, þá er fátt meira slakandi en að setjast niður og spila aðeins. Þar að auki hefur maður nóg af frítíma til að æfa sig þegar að maður kann ekki ennþá nóg í málinu til að eignast vini og maður verður merkilega fljótt betra en mellufær.

                    Þegar ég bað um að fá gítarinn í gærkvöldi var ég því nokkuð viss um að ég myndi ekki gera sjálfan mig að of miklu fífli, þrátt fyrir að vera búinn að marinerast í áfengi í smá tíma. Allir aðrir voru samt á sama ölvunarstigi og ég, þannig að þau feilspor sem ég tók þegar ég sló upphafshljómana í 'No One' eftir Aliciu Keys fóru framhjá hinum, sem þekktu ekki ennþá lagið. Svo söng ég fyrstu línuna og vinkona mín tók undir. Og enginn annar. Við tvö sungum allt lagið án þess að ein einasta manneskja syngdi með. Þetta er ekki eðlilegt. Líf fólks skiptist í tvo hluta, áður og eftir að það heyrði 'No One', og það er algjörlega ómögulegt að sitja kyrr og sötra bjór þolinmæðislega á meðan að það er spilað, hvað þá sungið af innlifun. Á þessu var aðeins ein möguleg útskýring: Ég og vinkona mín vorum í grillfylleríi í rjóðri fyrir aftan gamalt virki með þrjátíu manns sem höfðu aldrei hlustað á Aliciu Keys. Á augnablikinu sem ég áttaði mig á þessu ákvað ég að eignast aldrei börn. Hvaða heimur sem inniheldur þrjátíu manns sem hafa ekki heyrt 'No One' er of grimmur til að fæða börn í.

                    <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/13-parents.jpg"> Foreldrar Jacks étnir af skógartrölli/manni í latexbúning.</p>

                    Á sama hátt vil ég ekki búa í heimi sem býr ekki til myndir eins og Jack Brooks: Monster Slayer. Ekki endilega af því að ég hafi eitthvað sérstakt dálæti á svona myndum, heldur út af allri vinnunni á bakvið þær. Að setja saman bíómynd er langt, flókið og taugatrekkjandi ferli sem er háð samvinnu fjölda einstaklinga og á meðan því stendur er oft er allt annað en augljóst að myndin líti einhvertímann dagsins ljós eða verði ekki að athlægi undir lokin. Mér hlýnar því um hjartarætur þegar ég hugsa til þess að einhversstaðar þarna úti er fólk sem helgaði líf sitt því í ár eða svo að búa til mynd um pípara sem berst við andsetinn efnafræðikennara. Sumt fólk reynir að betra sig og heiminn með því að vinna fyrir Amnesty International, aðrir gera magaæfingar á morgnana, og enn færri kvikmynda Jack Brooks: Monster Slayer.

                    Aðalpersóna Jack Brooks er píparinn Jack Brooks. Þegar að hann var lítill varð hann vitni að því að skógartröll drap fjölskylduna hans meðan þau voru í útilegu, og hann þjáist af bræðisköstum af því hann hefur aldrei getað fyrirgefið sér fyrir að hafa flúið, þrátt fyrir að hann hefði ekki getað gert neitt til að hjálpa þeim. Ofan á að píparast á daginn og bræðiskasta bílnum sínum í gang, þá fer Jack í kvöldskóla með óþolandi kærustunni sinni þar sem þau sækja efnafræðitíma hjá Dr. Crowley. Ef það var einhvertímann útskýrt af hverju Jack er í þessum tímum þá fór það framhjá mér, en það skiptir svo sem engu máli af því tímarnir eru bara afsökun til að hafa einhver tengsl á milli Jack og Crowley. Svona þegar ég hugsa um það átta ég mig ekki alveg á af hverju þeir tveir þurftu að eyða einhverjum tíma saman fyrir utan kennslustofuna, af því að það eina sem kemur út úr því sem tengist sögunni eitthvað er viðvörun frá gömlum manni í pípulagningarbúð um að eitthvað illt sé í kringum húsið sem að Crowley býr í, en því hefði alveg eins verið hægt að koma fyrir sem slembisamtali á bar eða eitthvað þannig.

                    Hvað sem því líður hafði gamli maðurinn rétt fyrir sér, eins og Dr. Crowley kemst að þegar hann grefur upp innsiglaðan kassa í garðinum sínum, sem í eru beinagrind af manni og hjarta innsiglað í einhversskonar svartri demónískri leðju. Leðjan yfirtekur líkama Crowley og ræktar með honum mikla matarlyst og kolkrabbaþreifara, sem hann nýtir til að gæða sér á nemendunum í efnafræðitímanum sínum og breyta þeim í andsetin skrýmsli. Eins og nafni sinn Bauer sættir Jack sig ekki við þetta kjaftæði og afræður að bræðiskasta sér í gegnum skrýmslin og andsetna kennarann til þess að bjarga ótrúlega tíkarlegu kærustunni sinni, sætu gellunni sem er búin að vera að daðra við hann, og hverjum öðrum sem er líka á lífi á staðnum.

                    <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/13-hippie.jpg"> Þessi maður er blessunarlega laminn.</p>

                    Fyrir utan hvernig djöflaleðjan er kynnt til leiks (Í alvöru, hver heldur áfram að grúska í dularfullum kassa fullum af mold eftir að hann finnur lærlegg af manni í honum?) þá fannst mér gaman að frelsinu sem fylgdi henni. Aðrar hryllingsmyndir þurfa að vinna eftir nokkuð föstum reglum þegar að þær eru búnar að negla skrýmslin sín niður - vampýrur, uppvakningar og almennar dýraplágur eru frekar vel skilgreind fyrirbæri með þekktar afmarkanir - en um leið og maður segir að þetta sé allt djöfullegri andsetningu að kenna getur maður eiginlega gert hvað sem er. Viltu láta fálmara vaxa út úr vísindakennaranum? Eða leyfa honum að smita aðra af djöfladýrkuninni? Eða breyta honum í ódýra útgáfu af Jabba the Hut? Gerðu það þá! Hvers vegna í fjandanum ekki? Andsetningar eru töfralausn kvikmyndanna á öllum vandamálum, og ég ætla héðan í frá að reyna að nýta mér þær oftar sem afsakanir í daglega lífinu. Auðvitað kemst hvaða mynd sem er ekki upp með svona stæla, maður þarf að vera tilbúinn til að taka hana hæfilega alvarlega til að sætta sig við svona spuna, en að vera tekin alvarlega er ekki eitt af vandamálum Jack Brooks. Hún þykist aldrei vera neitt annað en ódýr skemmtun um reiðan gaur og skrýmsli.

                    Þess vegna er undarlegt hversu miklum tíma Jack Brooks eyðir í tilraunir til persónusköpunar og baksögu áður en að Jack byrjar að berja á djöflunum. Þó að Dr. Crowley verði sífellt undarlegri eftir að hann kemst í tæri við djöfulinn, þá ógnar hann engum fyrr en að það er klukkutími liðinn af myndinni og lokabardaginn er rétt handan við hornið. Allur tíminn þar á undan fór í að horfa á Jack spjalla við sálfræðinginn sinn um reiðivandamálið og fjölskylduna sína eða fylgjast með efnafræðitímum og einstaka atriðum úr daglega lífinu. Útkoman er sérkennileg. Öll baksagan er vel sett saman og er á köflum fyndin og manni leiðist ekkert við að horfa á hana, en það er alltaf á tæru að Jack Brooks er mynd um gaur sem lemur skrýmsli í klessu, og á meðan henni stendur finnur maður í sífellu fyrir lítillega ertandi tilhugsun um að það er ekki búið að lemja nein skrýmsli ennþá. Ég er alveg til í að fylgjast með fólki með djúpstæð persónuleg vandamál, og kunni vissulega að meta vinnuna sem fór í að reyna að skissa alvöru persónu úr Jack, en hvorugt þessara atriða er ástæðan fyrir að mig langaði að horfa á mynd sem heitir Jack Brooks: Monster Slayer.

                    Ég hef á tilfinningunni að Jack Brooks sé ekki alveg viss um hvernig henni á að finnast um reiðisköst og ofbeldi. Eins og kemur skýrt fram er Jack sjálfur orðinn leiður á því að hafa ekki stjórn á skapi sínu og hvernig það kemur honum í vandræði, af því að hann er ekki vondur maður heldur bara gaur sem verður pirraður þegar að hann mætir einhverju sem hann skilur ekki og á erfitt með að hemja sig. Hins vegar er erfitt að lesa einhverja fordæmingu á gjörðum Jacks úr myndinni, af því að hún hefur óhemju gaman af því að velja hentug fórnarlömb fyrir reiðisköstin (Ég stóð upp úr stólnum og klappaði þegar að Jack barði óþolandi hippabekkjabróður sinn. Eins og skáldið sagði: ,,Goddamn hippies. Say they wanna save the world, but all they do is smoke pot and smell bad.``) og hún málar slagsmálaatriðin yfirleitt í jákvæðu ljósi, eins og þau séu kannski ekki eitthvað sem þurfti að gera en þau séu alla vega réttlætanleg.

                    <p align="center"><img src="http://hrollur.files.wordpress.com/2009/04/13-wrestling.jpg"> Ofbeldi er kannski rangt, en eins óskýrt og þetta skot er, þá er það ekkert nema töff.</p>

                    Út af þessum umfjöllunum á ég það til að hugsa miklu meira um þessar myndir en höfundarnir gerðu endilega ráð fyrir að fólk myndi gera, svo það er möguleiki að þetta sé kolrangt hjá mér, en ég held að Jack eigi að vera persónugerving ákveðnar karlmennskuímyndar sem á sér erfitt uppdráttar í samfélaginu í dag. Hann er gangandi dæmi um sterka manninn sem vill helst ekki tala um tilfinningar sínar og finnst auðveldast að lemja frá sér þegar hann mætir einhverju nýju. Allt vesenið sem Jack lendir í út af hegðun sinni endurspeglar hvernig þessi ímynd er ekki talin eðlileg lengur, en jafnframt má lesa lokin á myndinni sem viðurkenningu á því að þessi hegðun átti sér eðlilegan stað í fortíð okkar þegar að heimurinn var ekki jafn öruggur og nú.

                    Ég held líka að Jack Brooks líti ekki svona jákvæðum augum á reiðisköstin hans Jacks og leyfi honum að sleppa tiltölulega vel undan andsetna efnafræðikennararnum bara af því að það er sögumennskan sem maður býst við að myndum af þessum klassa, heldur líka af því að stundum langar okkur öllum að bregaðst við eins og Jack. Alveg sama þó að maður viti að það sé ekki rétt og leysi ekki neitt og að maður geti lent í alvarlegum vandræðum fyrir það, þá langar mann stundum bara að kýla fólkið í daglega lífinu. Maður gerir það ekki, en eftir stendur engu að síður að löngunin var til staðar, sem minnir á að þrátt fyrir lög, siðareglur og fallegan arkitektúr er ennþá mjög stutt frá því að við bjuggum í trjám og að við erum ekki komin lengra frá þeim en þetta.

                    Ef að þessi pæling tryggði Jack Brooks: Monster Slayer ekki verðlaun ársins fyrir mestu oflesningu úr kvikmynd miðað við gæði, þá bíð ég spenntur eftir myndinni sem toppar þetta. Jack Brooks er mynd um reiðan pípara sem lemur skrýmsli. Hún skartar kannski meiri persónusköpun og aðeins dýpri baksögu en aðrar myndir af sama toga, á verulegs kostnaðar skrýmslabarsmíðanna, en hún er ekkert annað en auðgleymanleg og skemmtileg mynd sem er best notið með nokkrum vinum yfir mörgum bjórum. Stundum er vindill bara vindill, og hlutirnir gerast ekki vindlalegri en Jack Brooks: Monster Slayer.

                    <p align="center"><strong>

                    Í NÆSTU VIKU ::</strong></p>

                    <a href="http://en.wikipedia.org/wiki/The_Host_(film)">_The Host_</a> frá Suður-Kóreu mætir sterk til leiks sem fyrsta, og vonandi ekki eina, risaskrýmslamynd ársins.

                    <p align="center">[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=hJnq9sm4Zxk&hl=fr&fs=1]</p>